Svindlarar beita þróaðri aðferð

Svindlið er þróað og vel útfært.
Svindlið er þróað og vel útfært. Af Facebook-síðu lögreglunnar

Í hverri viku berast lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynningar um svindl. Fræg eru svokölluð nígeríubréf þar sem einhver prins eða fjarskyldur ættingi eins og hr. Thuridur Jonsdottir dó í Afríku. „Þar veitir íslenska okkur nokkra vörn og aðferðin er ódýr og oftast ekki mjög trúverðug, segir í færslu lögreglunnar á Facebook.

Í dag barst lögreglunni tilkynning um mun þróaðari aðferð. Brotaþolar þessa hóps eru smá fyrirtæki og einyrkjar. Þeim eru send bréf sem líta út fyrir að vera hálf opinber og þar er verið að bjóða þeim að skrá sig á einhverri evrópskri síðu. Búið er að fylla út hluta upplýsinganna og allt virðist mjög formlegt og einfalt. Mjög snemma í bréfinu koma orðin „The basic entry and the update are free of charge.“ Með í bréfinu fylgir umslag og eyðublað til að uppfæra upplýsingar og lykilatriðið er að það á að gefa upp VSK númer.

Fyrirtækið hefur komið sér upp virkri vefsíðu og tengiupplýsingar eru réttar að vissu marki en þjónustan er engin og það er engin ástæða til þess að láta skrá sig þar. En á yfirborðinu virðist allt vera slétt og fellt.

Þar er hálf sagan sögð, segir í færslu lögreglunnar. Því í smáa letri eyðublaðsins er verið að „kaupa“ auglýsingu fyrir 677 Evrur (100.291 kr.). „The adverisment costs amount to 677 Euro per year.“

„Það sem mun gerast ef einhver fellur í þá gryfju að endursenda þetta eyðublað er að viðkomandi fær rukkun fyrir 677 evrur og síðan lögfræðileg innheimtubréf,“ segir lögreglan. Það að fylla út VSK númer er flokkað sem breyting á skráningu (sem kostar) og með því að endursenda eyðublaðið er kominn bindandi samningur. Ef viðkomandi hringir þá getur vel verið að honum sé boðin afsláttur, oft mjög verulegur eins og 70% og ef viðkomandi greiðir það þá er hann ekki sloppinn því að hann mun síðar fá aðra rukkun. Þá er honum líka bent á að með fyrstu greiðslu kom bindandi samningur. Grunn reglan er að aldrei borga neitt.

Valda hugarangri

„Svindl af þessu tagi getur valdið verulegum óþægindum og hugarangri enda er mikið gert til þess að þrýsta eftir greiðslu þó ekki sé vitað til þess að neinn hafi verið lögsóttur eftir slíkri greiðslu en því verður hótað og aukin flækjustig eins og stefna í Þýskalandi koma upp,“ segir lögreglan um málið.

Upphafleg útgáfa þessa svindls var DAD Deutscher Adressdienst GmbH. Ef vel er lesið í bréfið þá kemur DAD GmbH fyrir í texta. Þetta form svindls hefur verið landlægt sérstaklega í Þýskalandi, Austurríki og Sviss en þar er innbyggt í þjóðarvitund að greiða alla reikninga.

„Besta leiðin til að varast svona er að svara aldrei slíkum bréfum,“ segir lögreglan. „Gerið sjálf könnun á netinu um fyrirtækin og ekki treysta á neina tengla sem ykkur eru sendir eða gefnir upp. Ræðið þetta líka við félaga og vini. Þið megið líka deila þessum pósti eða deila á þá sem þið teljið að hafi gagn af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert