Við mikla viðhöfn var Elín Pálmadóttir, 88 ára rithöfundur og blaðamaður, sæmd æðstu orðu Frakklands (Légion d'honneur) af franska sendiherranum í gær fyrir einstakt framlag sitt í þágu Frakklands og franskrar menningar.
Við athöfnina var fjöldi franskra sjóliða sem vottuðu Elínu virðingu sína, en franska herskútan Etoile liggur við höfn í Reykjavík. Orðuveitingin fór fram í Sjóminjasafninu og var orðuhafinn Elín nær orðlaus yfir þeim mikla heiðri sem henni var sýndur, að því er fram kemur í umfjöllun um athöfnina í Morgunblaðinu í dag.
„Ég er svo hissa að ég get ekki sagt annað við þá en takk, takk!“ sagði Elín og hló. Hún sagðist hafa orðið gagntekin af Frakklandi þegar hún vann hjá íslenska sendiráðinu í París og mælti með því að ungt fólk lærði frönsku. „Það er svo allt annar kúltúr í Frakklandi. Það kemur mikið fram í fréttum hvað við mótumst mikið af enskumælandi löndum. Mikið vantar í íslenska menningu og blaðamennsku þegar menn tala ekki frönsku.“