Metfjöldi umsókna á Akureyri

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Umsóknir um nám við Háskólann á Akureyri hafa aldrei verið fleiri en fyrir haustönn 2015. Um er að ræða 30% aukningu frá fyrra ári. Rektor skólans þakkar þetta þrotlausri vinnu starfsfólks skólans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

Þegar umsóknarfrestur rann út á miðnætti hinn 5. júní höfðu rúmlega 1.400 umsóknir borist um skólavist. Þetta er mesti fjöldi umsókna sem borist hefur Háskólanum á Akureyri frá upphafi.

„Mesta aukning er í sjávarútvegsfræði á grunnnámsstigi en þar er aukning 81%. Í heilbrigðisgreinar skólans er líka mikil aukning, 57% í iðjuþjálfunarfræði og 46% í hjúkrunarfræði. Sama gildir um viðskiptafræði, kennarafræði, diplómanám í leikskólafræði og í aðrar félagsvísindagreinar skólans. Diplómanám í tölvunarfræði verður samkennt með Háskólanum í Reykjavík í fyrsta skipti næsta haust, en í það hafa borist 43 umsóknir nú þegar,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að fleiri umsóknir hafi borist um framhaldsnám við skólann en mesta aukningin var í nám í heimskautarétti (e. Polar Law). Þar fjölgaði umsóknum um 56% frá því síðast var tekið inn. Einnig var mikil fjölgun í framhaldsnám í heilbrigðisvísindum, eða 23%.

Samvkæmt tilkynningunni frá háskólanum segir Eyjólfur Guðmundsson rektor að þetta sé árangur mikils starfs sem hefur átt sér stað innan skólans, hvað varðar uppbyggingu námsleiða, gæðavinnu og hnitmiðaðrar markaðssetningu á sérstöðu skólans.

„Eyjólfur segir jafnframt „Ég er mjög ánægður með að þrátt fyrir verulegar þrengingar á fjármögnun skólans síðustu ár hafi tekist að halda uppi gæðum námsins vegna þrotlausrar vinnu af hálfu starfsfólks skólans. Sú vinna hefur skilað sér í ánægju nemenda, góðu og  persónulegu námsumhverfi sem skilar sér nú í fleiri umsóknum.“

Háskólinn á Akureyri mun útskrifa 322 nemendur laugardaginn 13. júní. Athöfnin fer fram í glæsilegum húsakynnum skólans og er það í annað sinn sem það er gert. Í fyrsta sinn í sögu skólans verður brautskráning í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4 og hefst kl. 11.00.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert