Stígvél á flugi í sveitinni

Aðalheiður æfir sig að Staðarfelli fyrir keppnina.
Aðalheiður æfir sig að Staðarfelli fyrir keppnina.

Aðalheiður Kjartansdóttir í Héraðssambandi Þingeyinga sigraði í stígvélakasti á Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík í fyrra og ætlar að reyna að verja titilinn á Blönduósi, þar sem Landsmótið verður 26.-28. júní næstkomandi.

Stígvélakast var fyrst keppnisgrein í fyrra og þá átti húsfreyjan að Staðarfelli í Kinn og yfirmatráðskona í Stórutjarnaskóla sviðið. „Bergur Elías Ágústsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Húsavík, tók að sér að starfa með Landsmótsnefndinni með því skilyrði að keppt yrði í stígvélakasti og hann fengi að stjórna því,“ rifjar Aðalheiður upp. „Hann fékk það og þar sem ég var fyrst í stafrófinu kastaði ég fyrst. „Heimsmet,“ kallaði hann eftir fyrsta kastið og þegar ég náði lengsta kastinu gall í honum: „Heimsmetið bætt.“ Hann þreyttist ekki á því að segja að ég væri fyrsti heimsmethafinn í greininni, því þetta var fyrsta löglega keppnin í stígvélakasti.“

Hvetur fólk til þátttöku

Fyrir mótið æfði Aðalheiður sig með því að kasta stígvéli með lakkrískonfektsmynstri og greindi samviskusamlega frá æfingunum í máli og myndum á Facebook, þar sem hún hvatti sveitunga og aðra til þess að keppa á Landsmótinu. Nú er hún í svipaðri stöðu í nefnd hjá HSÞ, sem hefur það verkefni að hvetja fólk, sem ekki er íþróttafólk, til þess að taka þátt í Landsmótinu. „Ég bíð bara eftir erindisbréfinu og hver veit nema ég haldi stígvélakastsæfingu fyrir áhugasama í sveitinni.“

Aðalheiður hefur ekki verið mikið í íþróttum. „Ég keppti einu sinni á skíðum á Akureyri, en annars hef ég lítið verið í hefðbundnum íþróttum. Hef samt gaman af því að hreyfa mig, fara út að ganga og synda, og það var ótrúleg upplifun að taka þátt í Landsmótinu, ekki síst vegna þess að ég sigraði, þó að ég væri í keppni við harðar íþróttakonur.“

Aukaverðlaun eru veitt fyrir broslegustu hljóð keppenda í stígvélakasti. „Bergur Elías hvatti okkur stöðugt og sagði okkur að öskra með kastinu því þá heyrðust önnur búkhljóð ekki eins vel,“ segir hún. „Þær eldri voru mjög góðar í því.“

Aðalheiður segist ekki hafa keppt í íþróttaskóm heldur verið í stígvélum dótturinnar með lakkrískonfektsmynstrinu og það hafi gert gæfumuninn. „Bergur Elías keypti keppnisstígvélið í Húsasmiðjunni og spreyjaði það appelsínugult svo það fyndist uppi í fjalli eftir köstin. Við sjáum til hvað gerist á Blönduósi en ég mæti aftur til leiks í sömu stígvélunum.“

Áhersla á félagslega þáttinn

Skráning stendur yfir á 5. Landsmót UMFÍ 50+, sem verður haldið á Blönduósi síðustu helgina í júní eða 26. til 28. júní næstkomandi. Auk keppni í ýmsum greinum verður mikið lagt upp úr skemmtidagskrá í stóru tjaldi á kvöldin og boðið verður upp á heilsufarsmælingar og fyrirlestra um heilbrigðan lífsstíl. „Við leggjum áherslu á félagslega þáttinn,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri mótsins, en hann gerir ráð fyrir um 300 til 500 keppendum.

Ómar hefur stýrt öllum Landsmótum og unglingalandsmótum UMFÍ frá 2004 og nú bætist 50+-mótið við. Hann segir að fólk eldra en 50 ára sé farið að huga meira að heilsunni en áður og því sé mótið kærkomin viðbót. Boccia, sund og frjálsar séu hefðbundnar greinar og starfsíþróttirnar veki alltaf athygli, en það sé fyrst og fremst samveran, gleðin og ánægjan sem skipti máli. Allir 50 ára og eldri geta verið með, burtséð frá því hvort þeir eru í félagi eða ekki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert