„Ég festist hér á Íslandi, sem betur fer“

Julia á vinnustofu sinni með auðan ramma fyrir ofan sig …
Julia á vinnustofu sinni með auðan ramma fyrir ofan sig en í hann sækir hún stundum innblástur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langamma mín var listakona og mamma er líka mjög hæfileikarík og einstaklega flink að teikna, þannig að þetta er sennilega í genunum,“ segir listakonan Julia Mai Linne Maria, sem deilir vinnustofu í húsnæði Grýtu á mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness með þremur íslenskum vinkonum. Þar flæða þau fram, verkin hennar Juliu, sem er fædd og uppalin í Svíþjóð, en hún heillaðist ung af Íslandi.

„Ég kom fyrst til Íslands fyrir níu árum, en þá var ég tuttugu og eins árs og ég ætlaði bara að vera hér í nokkra mánuði, vinna á bar og kynnast landi og þjóð. Ástæðan fyrir því að ég valdi að koma til Íslands er sú að þetta er lítil eyja, hér er kalt og vinalegt. Ég ætlaði alltaf að flytja aftur til Svíþjóðar og reyndi það í eitt ár en ég saknaði Íslands svo mikið að ég flutti aftur hingað og hef verið hér síðan,“ segir Julia, sem á sjö ára son með íslenskum manni og segir það vissulega vera hluta af því að hún er hér enn.

„Ég festist hér, sem betur fer, enda langar mig hvergi annars staðar að vera.“

Selur verk um allan heim

Júlía er sjálfmenntaður listamaður, en hún lærði húsgagnasmíði í Kaupmannahöfn á sínum tíma.

„Ég var alltaf að prófa eitthvað, fór í blaðamennsku og ýmislegt fleira. En ég hef aldrei verið neitt sérlega góð í því að vera í skóla, ætli ég sé ekki dæmigerð „drop out“-manneskja“, segir Júlía og hlær.

Eins og fyrr segir er listin henni í blóð borin og hún segist alltaf hafa verið að teikna og mála frá því að hún var krakki.

„En undanfarin þrjú ár hef ég sinnt þessu af meiri alvöru og gefið mér meiri tíma í listsköpunina. Ég hef komist að því að ég gæti lifað á þessu og þetta gengur alltaf betur og betur. Ég var úti í Svíþjóð fyrir mánuði að mála tvö stór vegglistaverk sem voru pöntuð hjá mér, það var mjög gaman og ég fékk tvö slík verkefni í viðbót í Svíþjóð sem ég vinn þar í sumar. Ég sel líka heilmikið af myndunum mínum, ég hef varla undan að mála og teikna. Ég hef tekið að mér ýmis verkefni í myndlistinni en ég vil ekki taka að mér verk nema það höfði til mín, ég verð að vera með brennandi áhuga á því sem ég er að gera hverju sinni. Ég leyfi mér að vera vandlát, af því að ég vil gera hlutina af heilu hjarta, ekki vélrænt,“ segir Júlía, sem er nýkomin með umboðsmann sem sér um að koma henni og verkum hennar á framfæri.

„Ég hef selt verkin mín út um allan heim, mest til Svíþjóðar og á Íslandi, en líka til Mexíkó, Frakklands, Sviss, Bandaríkjanna og fleiri landa.“

Risastórt vegglistaverk á Rifi

Þegar Julia er spurð að því hvaðan myndheimur hennar komi segir hún að höfuð hennar sé fullt af alls konar myndum sem vilji komast út og birtast á pappír eða vegg. Henni finnst gaman að prófa ólíkan efnivið en mest vinnur hún með blek og vatnsliti.

„Ég nota blekpenna en líka fljótandi blek. Ég keypti krukku af bleki frá 1940 í forngripaversluninni Fríðu frænku og það er frábært efni til að vinna með, það flæðir öðruvísi og áferðin er önnur. Stundum veit ég alveg hvað ég ætla að mála þegar ég sest niður en stundum læt ég blekið leka á pappírinn og leyfi forminu sem það skapar að ráða för. Ég prófaði að vinna verk með spreyi nýlega og það gekk vel og ég er búin að fá verkefni á Rifi á Snæfellsnesi í sumar, í menningarmiðstöðinni Frystiklefanum. Þetta er útilistaverk á þrjátíu metra vegg, það verður spennandi að takast á við það. Ég fékk þetta verkefni í framhaldi af öðru útiverki sem ég vann þar áður á aðeins minni vegg,“ segir Julia, sem meðfram því að sinna listinni starfar sem barþjónn á Kaffibarnum.

„Ég skiptist á að vinna eina viku á barnum og eina viku í myndlistinni á vinnustofunni. Það er frábært að vera hér í þessu risastóra húsnæði og í góðum félagsskap. Hér eru milli tuttugu og þrjátíu manns með vinnustofur. Borgin á húsnæðið og vill rífa það, sem verður vonandi ekki, því hér er mikil sköpun í gangi, myndlistarfólk, hönnuðir, smiðir, tónlistarmenn og margir fleiri.“

Hægt er að skoða verkin hennar Juliu á Facebook-síðu hennar: facebook.com/juliamailinnea
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert