Ekið á kind í tvígang

Það var heldur ljót sjón er blasti við bóndanum Þorsteini Guðmundssyni á Finnbogastöðum í Árneshreppi í gær þegar keyrt hafði verið yfir kind ásamt tveimur lömbum í tvígang. Viðkvæmir eru varaðir við myndefni með þessari frétt. 

Það var fjölskylduvinur sem keyrði á kindina í fyrra skiptið. „Hún hafði legið hreyfingarlaus við veginn en þegar hann var rétt ókominn að henni stökk hún upp sem varð til þess að stuðarinn fór rétt í hana.” Ökumaðurinn skyldi við kindina út í vegarkanti og náði í Þorstein til að fá hjálp og til að ákvarða hvað gera ætti við hana.

Þegar þeir röltu svo aftur niður til hennar um það bil tíu mínútum síðar hafði annar ökumaður keyrt yfir kindina og bæði lömbin hennar og ekið í burtu. „Hún lá á miðjum veginum og hafði dregist um 20-30 metra með bílnum, annað lambið á veginum en hitt hafði kastast út í kant.” Hann segir kindina hafa verið afar illa farna og aflífa þurfti annað lambið á staðnum. Ökumaðurinn keyrði í burtu án þess að tilkynna atvikið.

Bændur tryggðir 

Þorsteinn segir að mál sem þetta séu tryggingamál. „Ef fólk heldur kindur á bústofninn að vera tryggður, hvort sem það eru 10 rollur eða 1000.” Hann tilkynnti atvikið til lögreglunnar á Ísafirði sem sér svo um að láta tryggingarnar vita.

Það er fyrst og fremst mikilvægt að ökumenn láti vita af málum sem þessum svo hægt sé að aflífa skepnurnar ef þær lifa slysin af. Þá skiptir það einnig máli svo að bændur fái bústofninn tryggðan. Þorsteinn telur að í þessu tilviki hafi ökumaður sýnt af sér mikið gáleysi og tillitsleysi og hafi líklega verið að aka of hratt um veginn.

Hann hvetur ökumenn til að láta vita ef ekið er á skepnur, „bara fara upp að næsta sveitabæ og láta vita.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert