Jæja-hópurinn boðar til mótmæla

Frá mótmælum Jæja-hópsins í vetur.
Frá mótmælum Jæja-hópsins í vetur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jæja-hópurinn stendur fyrir mótmælafundi á morgun, miðvikudag 1. júlí klukkan 19.40 á Austurvelli, samhliða eldhúsdagsumræðum Alþingis.

Í tilkynningu mótmælanna stendur: "Nú fer ríkisstjórnin í frí til þess að grilla og tjilla, á meðan margir hafa varla efni á að kaupa sér mat til að grilla, hvað þá grill! Þjóðfélagið er í sárum og nú tekur við þögn sumarfrís Alþingis.

Enn er ósamið við marga samningsaðila ríkisins í kjaramálum. Þeim hefur verið sýnt fullkomið virðingarleysi í gegnum sýndarviðræður, lagasetningu á verkföll og nánast engan samningsvilja, en fótboltaleikir virðast frekar hafa verið í forgangi. Heilbrigðiskerfið er á heljarþröm, en ráðamenn eru í algjörri afneitun.

Stjórnarskránni er ennþá haldið í gíslingu, umhverfismál eru í ólestri, siðblinda og spilling leika lausum hala. Tengsl ríkisstjórnarinnar við almenning er lítil sem engin! Við ætlum að minna á þessi atriði og mörg fleiri við eldhúsdagsumræður á miðvikudagskvöldið! Fjölmennum á Austurvöll og mætum með trommur, búsáhöld, reykskynjara, hvað sem framkallar hljóð reiðinnar og þeirrar raddar sem við ætlum að láta heyra í!! Mætum klukkan 19.40. Stöndum saman. Þetta kemur okkur öllum við."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert