Lita í bækur og takast á við kvíða

Hér má sjá mynd úr bókinni Leynigarðurinn.
Hér má sjá mynd úr bókinni Leynigarðurinn. Ljósmynd/Bjartur

Litabækur fyrir fullorðna hafa slegið í gegn víða um heim að undanförnu. Teikningarnar í bókunum eru heldur fínlegri en þær sem ætlaðar eru fyrir yngri kynslóðirnar. Margir sem hafa rennt litum yfir síðurnar segja áhugamálið róandi og gott til að takast á við kvíða og streitu.

Bókin Leynigarðurinn eftir Johönnu Basford kom nýlega út hjá Bjarti og nýtur hún þegar mikilla vinsælda. Bókin er komin út í 37 löndum og hefur hún selst í 1,5 milljón eintaka.

Guðrún Vilmundardóttir, útgáfustjóri Bjarts, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða fínlegar og flóknar myndir sem dásamlegt sé að sjá lifna við á síðunum með fallegum litum. „Það er að sjálfsögðu hægt að lita í einrúmi en það er líka gaman að lita fleiri saman og áhugavert að vera með sömu bókina til að geta borið saman ólíkar útgáfur af sömu myndinni,“ segir Guðrún.

Teiknar myndir í skoskri sveitasælu

Höfundur bókarinnar er hin skoska Johanna Basford. Hún er teiknari og garðyrkjukona og býr í skoskri sveit.

„Hún sameinar þessar ástríður sínar með því að teikna þessar fínlegu og fallegu myndir af jurtum og blómum og skordýrum í Leynigarðinum. Henni hefur alltaf liðið best með teiknipenna eða liti í hönd, segir hún, og langaði til þess að deila þessari vellíðan með fleirum - og það hefur svo sannarlega tekist! Nú situr fólk og litar úti um allan heim,“ segir Guðrún.

„Það er bara eitthvað við það að lita – það er róandi, maður er bara að gera þetta fyrir sjálfan sig, en það er líka hægt að taka átt í samfélaginu með því að bera saman bækur sínar. Það er eitthvað svo gaman að sjá síðurnar fyllast af litum og verða svona fallegar, maður sér svo sannarlega árangur erfiðis síns,“ segir Guðrún.

„Það er einstaklega þægilegt að láta hugann reika á meðan maður litar - en svo er líka hægt að einbeita sér fullkomlega að því að spá í litina og spekúlera og úthugsa myndirnar áður en maður hefst handa. Fólk hefur sagt að það að lita hjálpi til þess að takast á við kvíða og streitu, og þeir sem aðhyllast núvitund hrósa litabókum sömuleiðis. 

Sjálf mæli Basford með fínlegum tússlitum til að fegra síðurnar en segir tréliti aftur á móti líka mjög góða.

Hér má sjá myndir sem áhugasamir teiknarar hafa deilt

Bókin Leynigarðurinn hefur verið gefin út í 37 löndum.
Bókin Leynigarðurinn hefur verið gefin út í 37 löndum. Ljósmynd/Bjartur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert