Ekki blásið frá hægri eða vinstri heldur að norðan

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. Mynd úr safni.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur staðið yfir fullkominn stormur fyrir fylgisaukningu Pírata að undanförnu. Síðustu mánuði hefur ekki mikið blásið frá hægri eða vinstri. Það hefur verið sterk norðanátt, sagði Jón Þór í eldhúsdagsumræðum í kvöld.

„Með norðanáttina í seglunum hafa Píratar risið hratt, og ítrekað mælst stærsti flokkur landsins. Við teljum að þessar tölur endurspegli vilja landsmanna til að breyta - ekki bara um fólk - heldur til að breyta stjórnkerfi landsins, stjórnskipan landsins.“

Hann sagði að gildi og framtíðarsýn landsmanna væru bæði mannúðleg, réttlát og praktísk. „Grunnstefna Pírata snýst um að landsmenn geti gert þessa sýn að veruleika,“ sagði hann.

Hann sagði þennan norðanstorm sem hann ræddi um munu lægja og fylgi Pírata fara niður. „En rétt eins og veðurfarið á jörðinni er að breytast þá er veðurfarið í stjórnmálum heimsins að breytast, og til lengri tíma mun sú veðurfarsbreyting lyfta þeim, sem eins og Píratar, vinna að því að vernda og efla nýja forgangsröðun á gildum fólks.“

Hann sagði að þegar breytt eftirspurn væri aðeins stormur sem stendur stutt yfir þá geti ráðandi öfl beðið hann af sér.

„En þegar þær breytingar eru til komnar vegna grundvallar veðurfarsbreytinga - grundvallar breytinga á gildismati fólks. Þá munu þeir sem þrjóskast við að leyfa þessu gildum að rísa enda sjálfir á að sökkva.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert