Gildistöku náttúruverndarlaga frestað

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gildistöku nýrra náttúruverndarlaga sem áttu að taka gildi í dag þann 1. júlí 2015, hefur verið frestað til 15. nóvember. Ástæðan er endurskoðun á ákveðnum köflum laganna sem ráðuneytið vinnur nú að samkvæmt ákvörðun umhverfis- og samgöngunefndar þann 19. febrúar í fyrra. 

Ráðuneytið kynnti drög að þessum breytingum þann 10. mars síðastliðinn og var frestur til umsagna 20. mars áður en endanleg drög ráðuneytisins voru lögð fram. Í greinargerð með frestunarlögunum í gær kemur fram að of skammur tími sé eftir af þinginu nú í sumar til þess að frumvarpið fái fullnægjandi umræðu á Alþingi. Er gildistökunni því frestað til 15. nóvember. Upphaflega lagði ráðherra til að gildistökunni yrði frestað til 1. janúar 2016 en við meðferð þingsins var því breytt og loks samþykkt að gildistakan verði þann 15. nóvember. Frumvarp um ný náttúruverndarlög með breytingum ráðuneytisins verður svo lagt fram á þingi í haust og gert ráð fyrir að gildistakan verði þann 15. nóvember. 

Lög um náttúruvernd eru heildarlög og munu fela í sér breytingu á fjölmörgum lögum, til dæmis lögum um innflutning dýra, lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, skipulagslögum og lögum um umhverfisstofnun. 

Helstu breytingarnar á lögunum eru að þau fela í sér markmiðsákvæði þar á meðal sérstök verndarmarkmið annars vegar fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir og hins vegar fyrir jarðminjar, vatnasvæði og landslag. 

Þá er kveðið á með skýrari hætti á um hlutverk stjórnvalda og ábyrgð sem og um verkaskiptingu þeirra á milli. Sérstaklega er leitast við að styrkja stjórnsýslu náttúruverndar á landsbyggðinni.

Ítarlegar er mælt fyrir um undirbúning ákvarðana og réttaráhrif þeirra og lögð er áhersla á vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku.

Gert er ráð fyrir auknu samráði við hagsmunaaðila og almenning við gerð áætlana.

Auknar heimildir eru fyrir stjórnvöld til að bregðast við brotum gegn ákvæðum laga og reglna, ekki síst með beitingu þvingunarúrræða.

Lagt er til að sérstakur sjóður, náttúruverndarsjóður, verði settur á laggirnar til að stuðla að náttúruvernd og umönnun friðaðra og friðlýstra náttúruminja og til að auka fræðslu um náttúruvernd og náttúrufar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert