Íbúðir í byggingu stórar og dýrar

Íbúðir sem verið er að byggja eru frekar dýrar og …
Íbúðir sem verið er að byggja eru frekar dýrar og stórar. mbl.is/Þórður

„Staðan er sú að þessar íbúðir sem er verið að byggja eru bæði dýrar og líka frekar stórar og þróunin að láta þær minnka hefur gengið hægt,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, í samtali við mbl.is. Reykjavíkurborg hefur undanfarið kynnt uppbyggingu á íbúðum, sérstaklega ætluðum ungu fólki, bæði til leigu og sölu. Enn virðist vera einhver bið á þeim möguleikum en þær nýbyggingar sem eru til sölu nú þykja fulldýrar fyrir fólk sem vill fjárfesta í sinni fyrstu eign.

Litlar einfaldar íbúðir ekki í boði

„Það eimir ennþá svolítið af því að litlar einfaldar íbúðir séu ekki í boði. Markaðurinn, eða þeir sem eru að byggja, hafa ekki séð sér hag í því að byggja slíkar íbúðir. Kannski er eitthvað á leiðinni en ferlið tekur tíma, það tekur eitt og hálft ár að byggja íbúð. Allt sem var, arfleiðin frá uppganginum í kringum 2008, það var allt saman frekar stórt,“ bætti Ari við.

Hann þekkir ekki nákvæmlega áætlanir um byggingu minni fasteigna. „Það hefur verið talað um af hálfu borgarinnar að láta byggja minna leiguhúsnæði en það er ekkert farið að sjást almennilega ennþá.“

Framboð á litlum íbúðum minnkað

Hin ýmsu fasteignafélög kaupa íbúðir, aðallega miðsvæðis. „Það er búið að vera þannig síðustu árin að sirka 10-15% af íbúðum sem eru seldar í miðlægu hverfunum fara til fyrirtækja. Þær íbúðir fara þá ekki inn í hefðbundna veltu. Það er þá ekki þannig að þú kaupir íbúð, búir í henni í þrjú ár og seljir mér hana. Hún verður bara í leigu áfram. Auðvitað leigir hana einhver í þrjú ár, fer svo og einhver annar kemur í staðinn. Þetta er því stigsmunur en ekki eðlismunur.

Ari segir að þessi þróun hafi breytt hinum hefðbundna markaði. „Sérstaklega með minni íbúðir þar sem fólk kaupir fyrstu íbúð, ódýra risíbúð eða kjallara, og flytur síðar í stærri íbúð. Sá pakki hefur farið svolítið í hendurnar á leigufélögunum. Þannig að framboðið á slíkum íbúðum á svæðum þar sem fólk vill búa er orðið töluvert minna en það var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert