„Lán að engin tengdamamma var í boxinu“

Dyrhólaey. Mynd úr safni.
Dyrhólaey. Mynd úr safni. mbl.is/ÞÖK

„Ég var að mynda við Dyrhólaey, við Reynisfjöru fyrir suðurkóreskt fyrirtæki. Það var búið að ákveða dagsetninguna fyrir löngu og þeir höfðu bara þennan eina dag,“ segir Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, sem lenti í kröppum dansi þegar mikið hvassviðri gekk yfir svæðið í gær.

„Það var búið að vera leiðindaveður, svo bara versnaði það í dag og það varð mjög slæmt rok á svæðinu. Við gátum klárað verkefnið því við vorum inni í helli við Reynisfjöru og myndað út,“ segir Árni. „En það var alveg snælduvitlaust veður.“

Upp úr miðjum degi tók hópurinn svo eftir því að það var útilegubúnaður sem var kominn út á sjó. Þegar við vorum búin með verkefnið var varla stætt, það var varla að við gátum labbað til baka með búnaðinn,“ segir Árni.

„Svo þegar ég kem að jeppanum þá hefur tengdamömmuboxið á jeppanum bara splundrast í rokinu og fokið úr því út á sjó,“ segir Árni, sem sá dýnur og vindsængur allt í kringum bílinn.

Efri hluti boxins fauk af

Hann segir að eftir hluti boxins hafi einfaldlega fokið af. „Mesta lánið var auðvitað að það var engin tengdamamma í boxinu,“ segir Árni og hlær. „Það var mesta Guðsmildi, því það hefði farið illa ef það hefði verið. Útilegubúnaðurinn fór allur út á haf. Það var alveg snarvitlaust veður.“

Þegar hópurinn var kominn vestur að Pétursey var hins vegar komið fínt veður, og veðurhæðin var mest um klukkan fimm eða sex. „Mér datt samt ekki í hug að þetta væri mitt dót. Einn kunningi minn sá þetta fjúka, en hann sá ekki hvaðan það kom.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert