Sniðgangi verslanir sem hækka mikið

Þorsteinn og Steingrímur eru ósáttir við verðhækkanir.
Þorsteinn og Steingrímur eru ósáttir við verðhækkanir. mbl.is/Ómar

Verðhækkanir bar mikið fyrir í umræðum um störf þingsins á þingfundi í morgun, en þar gagnrýndu þingmenn nokkurra flokka hækkanir birgja og smásala þrátt fyrir styrkingu gengis krónunnar undanfarið gagnvart okkar helstu viðskiptamyntum. Tveir þingmenn Framsóknarflokksins vöktu máls á vandanum, þau Þorsteinn Sæmundsson og Elsa Lára Arnardóttir. Hvatti Þorsteinn neytendur til að sniðganga þau fyrirtæki að lengst ganga í hækkunum.

Þá lýsti hann áhyggjum af því að verslanir hefðu ekki skilað lækkunum á sykruðum vörum til neytenda. Auk þess velti hann upp áhyggjum af því að kaupmáttur færi ekki hækkandi vegna málsins og hugsanlegum áhrifum á kjarasamninga. Þannig vitnaði hann til orða Ólafs Darra Arnarsonar, deildarstjóra hagdeildar ASÍ, í Morgunblaðinu í dag. „Hafi kaupmáttur ekki aukist í febrúar á næsta ári eru forsendur nýgerðra kjarasamninga brostnar,“ segir Ólafur Darri.

Frétt mbl.is: Forsendubrestur er yfirvofandi

Elsa sagði sólarhringsopnanir vera áhyggjuefni.
Elsa sagði sólarhringsopnanir vera áhyggjuefni. mbl.is/Heiðar

Áhyggjuefni að opið sé á nóttunni

Elsa Lára tók undir orð Þorsteins og benti á að fréttir bærust af verslunum sem hefðu hækkað vöruverð um 4% á skömmum tíma, þrátt fyrir 10-12% styrkingu krónunnar á tilteknu tímabili. „Neytendur hafa ekki fengið að finna fyrir lækkun vöruverðs, en þeir eru fljótir að finna fyrir því þegar hækkanir verða,“ sagði Elsa. Benti hún síðan á að hækkanir virtust hafa verið mestar í verslununum Hagkaup og Iceland.

„Áhyggjuefni er að þetta eru verslanir sem eru opnar allan sólarhringinn, en neytendur bera sjálfir kostnaðinn af þessari opnun. Er nauðsynlegt að þær séu opnar svona lengi?“ Benti hún á að afleiðingarnar væru hærra vöruverð sem hækkaði tilteknar vísitölur. Þá ítrekaði hún orð Þorsteins um að kjarasamningar gætu verið í hættu vegna kaupmáttarminnkunar.

Valgerður Bjarnadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tók undir orð þingmanna Framsóknarflokksins og sagði lækkanir aldrei skila sér til neytenda að sama skapi og hækkanir. „Þetta hefur því miður alltaf verið svona. Verslunin er fljót að hækka þegar gengi breytist eða nýtt verð kemur inn, en dregur því miður alltaf lappirnar við að lækka,“ sagði Valgerður. Hún lýsti sig hins vegar andsnúna því að þingið skipti sér að opnunartíma verslana og sagði það neytenda að ákveða hvort þeir versluðu við slík fyrirtæki.

Lítil samúð „þegar þeir koma og væla“

Steingrímur J. Sigfússon deildi áhyggjum þingmannanna en sagði málið ekki koma sér á óvart. Benti hann sérstaklega á niðurfellingu sykurskatts í því samhengi. „Afhverju kemur þetta mönnum á óvart?“ spurði Steingrímur og sagði að margoft hefði verið bent á að málin færu með þessum hætti yrði tillagan samþykkt á sínum tíma. Samt hefðu Framsóknarmenn sem nú væru í pontu samþykkt tillöguna. „Ég hef litla samúð með þeim þegar þeir koma og væla yfir því að skattafnámið hafi ekki skilað sér til neytenda.“

Matarkarfan hefur hækkað hjá níu verslanakeðjum af tólf.
Matarkarfan hefur hækkað hjá níu verslanakeðjum af tólf. mbl.is/Sverrir

Frétt mbl.is: Matarkarfan hækkar umfram spár

Vörukarfa ASÍ hafi hækkað hjá níu verslanakeðjum af tólf frá desember 2014 þar til í byrjun júní. Þannig hafi hækkunin verið mest hjá Iceland, um 4,8%, en Hagkaup fylgir fast á hæla þeirra með 4,6% hækkun. Á sama tíma­bili lækk­ar vörukarf­an hjá Kjar­val, Krón­unni og Nettó.

Þá var áætlað að vöru­flokk­ur­inn sæt­indi myndi lækka um u.þ.b. 10% vegna af­náms syk­ur­skatts en það er aðeins Bón­us sem lækk­ar í takt við það. Krón­an, Nettó og Kaup­fé­lag Vest­ur-Hún­vetn­inga koma þar á eft­ir með lækk­un á bil­inu 6,6-7,7%.

Enn minni lækk­un er hjá Hag­kaup, Sam­kaup-Úrvali, Víði, Kaup­fé­lagi Skag­f­irðinga og Kjar­val eða um 1,2-4,4%. Í versl­un­um Ice­land, 10/​11 og Sam­kaup-Strax hækka sætindi í verði eða um 0,2-2,2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert