Tuddapólitík verður að heyra sögunni til

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Golli

Svandís Svavarsdóttir sagði mikilvægt að stöðva ofsagróða útgerða í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hún sagði jafnframt að stjórnarandstaðan hafi verið skilningsrík stjórnarandstaða, sem hafi ekki látið á móti sér að taka inn stór mál með litlum fyrirvara og mótmæla ekki þegar þingfundir voru boðaðir með litlum fyrirvara.

Hún sagði Íslendinga þurfa að nýta efnahagsbatann öllum til heilla. „Fátækt á ekki að viðgangast,“ sagði Svandís.

Lýðræði snýst um að hafa rödd allt árið um kring, ekki bara í kosningum, segir Svandís. Það varðar öll svið mannlífsins. Það krefst óhindraðs aðgengis að menntun og sterka og gagnrýna fjölmiðla.

„Lýðræði má ekki bara vera fyrir suma. Það verður að vera fyrir alla,“ sagði Svandís í tengslum við aðgengismál, ekki bara aðgengi að byggingum, heldur líka að samtalinu í þjóðfélaginu.

Hún sagði VG hafa miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu, það sætti lagasetningu í kjarabaráttu og að ekki væri komið til móts við hjúkrunarfræðinga og BHM. Byggingu Landspítala væri alltaf skotið á frest og að einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu fengju að starfa áfram, þrátt fyrir vanhæfni þeirra að hennar mati.

Hún sagði meirihlutann aðhyllast einfalt meirihlutaræði. Hún sagði Bjarna Benediktsson hafa í ræðustóli sagt „Meirihlutinn ræður“. Það væri að hennar mati hættulegt lýðræðinu. Hún sagði tuddapólitík verða að heyra sögunni til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert