21.728.250 krónur til Klepps

21.728.250 krónur söfnuðust til uppbyggingar Batamiðstöðvar á Kleppi.
21.728.250 krónur söfnuðust til uppbyggingar Batamiðstöðvar á Kleppi. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Formleg afhending á söfnunarfénu sem safnaðist í WOW Cyclothoninu fór fram á Kleppi í dag. Í keppninni  safnaðist 21.728.250 krónur til styrktar uppbyggingar Batamiðstöðvar á geðsviði Landspítalans á Kleppi. Aldrei hafa jafnmargir keppendur tekið þátt en um það bil þúsund manns hjóluðu hringinn í kringum landið. 

Það var María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala og samstarfsfólk hennar sem tóku við ávísuninni frá aðstandendum WOW Cyclothon og liðsmönnum Hjólakrafts.

Hjólakraftsliðin fjögur unnu áheitasöfnunina og söfnuðu samtals 1.034.500 krónum en lið MP banka kom fast á hæla þeirra og safnaði 1.021.000 krónum. Keppnin er orðin stærsti einstaki hjólreiðaviðburður á Íslandi og samkvæmt Matthias Ebert, sem vann einstaklingskeppnina er WOW Cyclothon ein stærsta „Ultra Cycling“ keppni í heimi miðað við fjölda þátttakenda.

Söfnunarfé úr WOW Cyclothon afhent í dag.
Söfnunarfé úr WOW Cyclothon afhent í dag. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Markmiðið var ekki eingöngu að hjóla til sigurs heldur einnig að styðja gott málefni. Í ár var hjólað til styrktar uppbyggingu Batamiðstöðvar á geðsviði Landspítalans á Kleppi en málefni geðsjúkra hafa almennt ekki notið mikils stuðning í samfélaginu. Í tilkynningu frá WOW air kemur fram að söfnunarfénu verður varið til að byggja upp aðstöðu til hreyfingar á Kleppi og til að ráða íþróttafræðing til að leiða verkefnið.

Rann­sókn­ir hafa sýnt að hreyf­ing sem meðferðarúr­ræði get­ur haft áhrif á bata geðsjúkra. „Það er því til mik­ils að vinna ef hægt er að bjóða upp á lík­amsþjálf­un sem hluta af endurhæf­ingu og auka um leið lífs­gæði,” seg­ir María Ein­is­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri geðsviðs Land­spít­ala.

Batamiðstöð er tilraunaverkefni til þriggja ára og krefst þess að ráðnir séu tveir íþróttafræðingar auk þess sem kaupa þarf tæki í íþróttasalinn á Kleppi. Vonast er til að verkefnið skili sér í bættum lífsstíl með lækkun á kostnaði fyrir notendur sjálfa, t.d. lækkun á lyfjakostnaði og fyrir samfélagið í heild. En fyrst og fremst eykur Batamiðstöð lífsgæði notenda geðsviðs sem er aðalhvatinn að baki verkefninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert