Fagnar fyrir komandi trúleysingja

Úlfar Þormóðsson
Úlfar Þormóðsson Árni Sæberg

„Ég bara fagna þessu fyrir komandi trúleysingja og aðra andófsmenn og konur,“ segir Úlfar Þormóðsson, rithöfundur, um afnám banns við guðlasti. Hann var dæmdur fyrir guðlast vegna skopritsins Spegilsins árið 1983. Hann segir afnám lagaákvæðisins ekki þurrka út þann dóm.

Alþingi samþykkti að afnema ákvæði um bann við guðlasti úr hegningarlögum í dag að tillögu þingmanna Pírata. Úlfar, sem var ritstjóri Spegilsins, var dæmdur til að greiða sekt eftir að 2. tölublað tímaritsins var talið fela í sér guðlast og klám árið 1983. Þar var meðal annars gert gys að fermingum. Öll eintök þess voru gerð upptæk og lögbann sett á birtingu þess sem þýðir að það er enn ekki aðgengilegt, nú rúmum þrjátíu árum síðar.

„Þetta eru sannarleg jákvæð og góð tímamót,“ segir Úlfar.

Ekki bara guðlast heldur klám og dónaskapur

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur það verið til skoðunar á Landsbókasafninu að birta þetta forboðna tölublað Spegilsins en engin niðurstaða liggur fyrir. Sjálfur hefur Úlfar ekkert heyrt af því.

„Þetta þýðir ekki að dómi sé aflétt af fortíðinni. Þetta gildir fyrir daginn í dag og framtíðina en þetta er ekki afturvirkur dómur. Dómurinn yfir Speglinum og yfir mér hefur ekkert verið þurrkaður út eða afnuminn,“ segir hann.

Þá segir Úlfar að dómur Hæstaréttar hafi ekki aðeins fjallað um guðlast heldur einnig klám. Það hafi verið með „helvítis dónaskap“ eins og hann orðar það. Baksíða blaðsins hafi þannig verið af saksóknara talin geta hvatt til ofbeldis í heimahúsum auk þess sem hún væri klám.

„Dómurinn yfir því hlýtur því að standa áfram,“ segir rithöfundurinn.

Þó að aðgangur að Speglinum sé enn bannaður í safni Landsbókasafnsins hefur verið hægt að nálgast hann með öðrum leiðum. Píratar birtu þannig á vefsíðu sinni eftir að frumvarp þeirra var samþykkt tengil á pdf-skjal af tölublaðinu sem félagið Vantrú hefur birt.

Frétt mbl.is: Guðlast ekki lengur glæpur

Mynd sem birtist í 2. tbl. Spegilisins árið 1983. Lögbann …
Mynd sem birtist í 2. tbl. Spegilisins árið 1983. Lögbann var sett á blaðið vegna guðlasts.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert