„Fólk var bara að farast“

Hitinn var mikill og fólk kældi sig þegar tækifæri gafst …
Hitinn var mikill og fólk kældi sig þegar tækifæri gafst til þess. AFP

„Þetta er búið að vera svakalegt, sérstaklega í gær þegar metin féllu. Ég held að þetta sé heitasti dagur allra tíma þar sem ég bý, í Wimbledon í London. Tennismótið fer fram þar og í gær voru boltastrákar hreinlega að hníga niður, fólk var bara að farast,“ segir Ólafur Kjaran Árnason í samtali við mbl.is. Hann býr í London í sumar þar sem hann aðstoðar prófessor við rannsóknir í London School of Economics.

Hitamet féllu í London í gær fyrir júlíumánuð en mestur varð hitinn 36,7 gráður við Heathrow flugvöll. Fólk er hvatt til að halda sig inni á heitasta tíma dagsins og drekka nóg vatn.

„Ég fór í strætó í gær í hálftíma og það var raunverulegt gufubað, alveg svakalegt. Fólk hefur verið varað við því að fara í neðanjarðarlestina en ég fór ekki í hana þegar hitinn var hvað mestur. Strætóinn var alveg nógu slæmur!“ segir Ólafur.

Hann segir að viðvaranir vegna hitans hafi verið settar upp í kringum lestarstöðvarnar. „Fyrr í vikunni var fólk varað við því að það yrði brjálæðislega heitt og því sagt að drekka nóg vatn. Einnig var bent á að leita starfsfólks lestarstöðvanna ef fólki liði undarlega.“

Það var heitara í London en á flestum stöðum sem Íslendingar tengja við sól og sumar. „Hér var heitara en á Spáni og Grikklandi. Ég er að vinna með fólki frá öllum heimshornum, það var alls ekki að höndla þennan mikla hita og þurfti að fara snemma úr vinnunni. Ég veit ekki hvort lélegri loftkælingu er um að kenna. Á skrifstofunni sem ég er á er nýkomin vifta sem bjargaði líklega málunum í gær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert