Lögreglan leitar að fallegum fossum

Höskuldur B. Erlingsson lögregluvarðstjóri á Blönduósi
Höskuldur B. Erlingsson lögregluvarðstjóri á Blönduósi mbl.is/Sigurður Bogi

„Náttúran í öllum sínum fjölbreytileika er skemmtilegt myndefni, hvort sem það er fuglalífið eða litbrigðin, fugla- og dýralíf eða á veturna þegar norðurljósin dansa um himinhvolfið,“ segir Höskuldur B. Erlingsson, lögregluvarðstjóri á Blönduósi.

„Í vinnunni er ég eðlilega mikið á ferð um þetta víðfeðma svæði sem við sinnum og oftast er ég með myndavélina í lögreglubílnum. Ef tök eru á stoppa ég svo og tek myndir af því sem fyrir augu ber. Á frívöktum fer ég oft í sérstakar myndatökuferðir.“

Við Hvammstangaafleggjarann

Fræg sakamálasaga sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir mörgum árum heitir Löggan sem hló.

„Já, það er bara gaman að rabba við þig og endilega taktu mynd,“ sagði Höskuldur og hló þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti hann nyrðra á dögunum. Leiðir sköruðust við afleggjarann að Hvammstanga, en þar var Höskuldur við umferðareftirlit.

Lengi hefur farið orð af kappi lögreglumanna á Norðurlandi vestra við að halda umferðarhraða á þjóðvegunum niðri. Þetta hefur verið áhersluþáttur í starfi lögreglunnar á Blönduósi, þar sem Höskuldur hefur starfað frá 2001. Tæp 30 ár eru síðan hann gekk í lögregluna, var fyrst í Reykjavík, svo allmörg ár á Hólmavík eða þar til leiðin lá í Húnavatnssýslurnar.

„Ég er Reykvíkingur að uppruna, en áhugamálin af þeim toga að ég vil búa úti á landi. Ég hef gaman af veiðiskap, bæði með byssu og á stöng, og á sumrin gríp ég oft í að leiðsegja veiðimönnum við húnvetnsku árnar. Í því stússi finn ég oft góð myndefni og eins í hestamennskunni,“ segir Höskuldur, sem næstliðna daga hefur verið með fjölskyldunni í hestaferð um Húnavatnssýslurnar, það er sveitirnar í hringum Hópið.

Máni og tröllskessan Kola

Síðustu árin hefur viðmælandi okkar gert víðreist um Húnavatnssýslurnar og myndað fallega fossa í ám, en margir þeirra eru faldar náttúruperlur og utan alfaraleiða. Myndasmiðurinn nefnir þar til dæmis fossana fremst í Vatnsdalsá, þar sem heitir Forsæludalur.

„Í Laxá á Ásum, sem er ekki langt hér fyrir utan Blönduós, er hinn fallegi Mánafoss, sem nefndur er eftir landnámsmanninum Mána. Fossarnir í Kolugljúfri í Víðidalnum eru nefnir eftir tröllskessunni Kolu – og svona gæti ég haldið áfram. Nöfn á ótal stöðum í náttúrunni eru dregin af alls konar sögum og þeim hef ég lagt mig sérstaklega eftir,“ segir Höskuldur, sem að undanförnu hefur verið að safna og vinna myndir af fossunum í Húnaþingi. Verkefnið fékk stuðning frá menningarráði Norðurlands vestra. Í bígerð er að halda sýningu á fossamyndum innan tíðar.

Straumendur í stórum stíl

„Þetta smáa og fallega í náttúrunni er yfirleitt bara beint fyrir framan okkur ef við höfum augun opin,“ segir Höskuldur B. Erlingsson. „Við ósa Blöndu, niður af lögreglustöðinni, halda straumendur sig í stórum stíl og það hefur spurst út. Erlendir ljósmyndarar eru gjarnan þarna á árbakkanum í hópum með sínar allra stærstu linsur og útkoman hjá því fólki virðist yfirleitt góð. Hvað telst góð mynd er annars alltaf smekksatriði. Myndir sem teknar eru í glaðasólskini um hásumar geta verið ágætar en séu ský á himni og einhver litur í himinhvolfinu verður útkoman oft enn betri.“
Steinkirkjan fræga á Þingeyrum á mynd sem tekin er á …
Steinkirkjan fræga á Þingeyrum á mynd sem tekin er á vetrarnóttu undir birtu dansandi norðurljósa í öllum regnbogans litum. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson
Mánafoss í Laxá í Ásum.
Mánafoss í Laxá í Ásum. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson
Kolgljúfur, sem kennt er við tröllskessuna Kolu, er innarlega í …
Kolgljúfur, sem kennt er við tröllskessuna Kolu, er innarlega í Víðidalnum. Fossinn þar fellur fram í nokkrum þrepum og það er sannarlega þess virði að gera sér erindi á þessar slóðir. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert