Segja að frekari rannsókna sé þörf

Rögnunefndin skilaði skýrslu í síðustu viku.
Rögnunefndin skilaði skýrslu í síðustu viku. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins telur að sá kostur sem Rögnunefndinni svokölluðu hugnast best í flugvallarmálum þarfnist frekari rannsókna áður en hægt er að kveða upp um hvort hann sé raunhæfur.

Í bókun borgarráðsfulltrúa í borgarráði í dag kemur fram að þeir leggi áherslu á að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt í núverandi mynd sem miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs, á meðan verið er að rannsaka aðra kosti betur.

Bókunin í heild:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir góða yfirferð yfir skýrslu Rögnunefndarinnar svokölluðu um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að sá kostur sem nefndin hallast helst að í Hvassahrauni þarfnast miklu meiri rannsókna áður en hægt er að kveða upp úr um hvort sá kostur sé raunhæfur. Eins og staðan er í dag er eini raunhæfi kosturinn flugvöllur í Vatnsmýri.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt í núverandi mynd sem miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs meðan verið er að rannsaka aðra kosti betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert