Skömminni skilað í fimmta sinn

Fjölmennt var í síðustu druslugöngu.
Fjölmennt var í síðustu druslugöngu. mbl.is/Árni Sæberg

Druslugangan svokallaða verður gengin í fimmta sinn þann 25. júlí næstkomandi.

Tilgangur Druslugöngunnar er að rísa upp gegn kynferðisofbeldi þar sem höfuðáhersla er lögð á að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur. Á Facebook viðburði göngunnar segir að alltof oft sé einblínt á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem afsökun fyrir kynferðisglæpum en að afsökun fyrir slíkum verknaði sé hreint ekki til.

„Druslugangan er fyrir alla,“ segir María Rut Kristinsdóttir, talskona Druslugöngunnar. „Við viljum fagna samfélagsumræðunni sem hefur átt sér stað undanfarið og vera vettvangur fyrir alla þá sem vilja berjast gegn kynferðisofbeldi.“

María vísar þar í byltinguna sem hefur átt sér stað síðustu mánuði undir myllumerkjunum #þöggun #freethenipple #konurtala og #6dagsleikinn.

„Sú bylting hefur hreyft við öllu samfélaginu. Það vita allir nákvæmlega hvað appelsínugulu myndirnar tákna, það vita allir hvað Free the nipple stendur fyrir. Það vita allir að kynferðisofbeldi er alltof algengt í okkar samfélagi. Það vita allir að við höfum þagað alltof lengi yfir ofbeldinu. En við vitum að saman getum við staðið upp og sýnt það í verki að við ætlum ekki að láta þetta ofbeldi yfir okkur ganga lengur. Druslugangan er vettvangur þar sem allir geta mætt, tekið afstöðu og gengið saman gegn kynferðisofbeldi.“

Þegar þetta er skrifað er rúmur klukkutími síðan Facebook viðburður Druslugöngunnar varð til en nú þegar hafa yfir 400 manns staðfest þátttöku sína. Druslugangan verður gengin frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll klukkan 14:00 þann 25. júlí og í kjölfarið taka við tónleikar og fundarhöld. Hægt er að staðfesta þátttöku sína og finna fleiri upplýsingar um viðburðinn á Facebook síðu hans.

María Rut, talskona Druslugöngunnar.
María Rut, talskona Druslugöngunnar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert