Leigan hækkar um 55 þúsund krónur

Húsaleigan hækkar töluvert.
Húsaleigan hækkar töluvert. mbl.is/Sigurður Bogi

Leigufélagið Tjarnarverk keypti tæplega níutíu íbúðir í Reykjanesbæ af Íbúðalánasjóði og mun húsaleiga í þeim íbúðum hækka töluvert. Íbúar eru ekki ánægðir með hækkunina en Tjarnarverk segir verðið sem þeir bjóði upp á í samræmi við aðrar íbúðir á svæðinu.

55.000 króna hækkun

Sigrún Dóra Jónsdóttir býr í einni af þeim íbúðum sem Tjarnarverk var að kaupa af Íbúðalánasjóði. „Leiguverðið núna eru 142.000 krónur en nýja leigan verður 197.000 krónur,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is. „Ég var heppin að því leyti að minn leigusamningur er ótímabundinn. Samkvæmt ákvæði í samningnum er uppsagnarfrestur sex mánuðir og ef samningnum verður sagt upp núna hef ég íbúðina fram í febrúar.“

Henni þykir ástandið erfitt. „Þetta er eiginlega ógerlegt fyrir mig og mína fjölskyldu. Við eigum fjögur börn á aldrinum 1-12 ára, ég er heimavinnandi öryrki, maðurinn minn vinnur úti, og þetta er ekki hægt. Ég hugga mig þó við þessa sex mánuði.“

„Veit ekki hvað við gerum“

Fjölskyldan er afar ánægð með hverfið. „Akurskóli er skólinn í hverfinu og hann er frábær og við erum einnig rosalega ánægð með leikskólann hérna. Þó það megi alveg lappa upp á húsnæðið þá er afar fínt að búa hérna. Okkur fannst við vera mjög heppin þegar við fengum þetta hjá Íbúðalánasjóði, þetta var náttúrulega bara lottó. Þeir auglýstu íbúðirnar, við sóttum um og vorum dregin út. En núna veit ég ekki hvað við gerum.“

Hefur samúð með fólkinu

Kjartan Már Kjaransson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að hækkun leiguverðs sé mikil. „Mér er sagt að þetta sé allt að 40% hækkun. Ég hef fulla samúð með þeim sem lenda í því að húsaleigan þeirri hækki um 40% með einu pennastriki,“ segir Kjartan. „Fasteignaverð á svæðinu er að hækka þannig að það er ekki óeðlilegt að það verði einhver hækkun.“

Hann hefur ekki teljandi áhyggjur af því að fasteignafélag kaupi fjölda íbúða og leiga hækki við það. „Markaðurinn hlýtur að leiðrétta sig og finna rétt verð. Ef fólki finnst þetta of há leiga hljóta markaðslögmálin að leysa það, einhverjir labba út. Ef það gerist þá hljóta eigendurnir annað hvort að lækka leiguna eða þeir fá einhverja sem eru tilbúnir að borga uppsetta leigu.

„Bara misskilningur“

Reynir Kristinsson, ráðgjafi fyrir Tjarnarverk, segir fólk ekki vera að flytja út. „Enginn hefur sagt upp samningi. Þetta var bara misskilningur, fólk misskildi bréfið sem var sent út. Við vorum að tilkynna með löngum fyrirvara að leigan myndi hækka,“ segir Reynir. „Við munum vinna með öllum okkar leigjendum í því að finna annað húsnæði eða koma til móts við þau í leigunni til að brúa þetta bil.“

Hann segir að leigan hækki á næsta ári og fólk hafi val. „Ég hugsa að flestallir sem búa á þessu svæði séu á svipuðu verði og við. Hins vegar gerum við okkur alveg grein fyrir því að leiga er að hækka. Það er allt að hækka, fasteignagjöld og hiti.“ Svæðið er vinsælt. „Ef íbúð losnar þá eru 5-10 manns á biðlista eftir íbúð.“

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert