Milljónirnar 50 ekki nóg

Ferðamenn við Geysi í Haukadal.
Ferðamenn við Geysi í Haukadal. mbl.is/Kristinn

„Þetta hefur ekki verið rætt við okkur þrátt fyrir að við séum tveir þriðju hlutar eigenda á svæðinu,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis um ákvörðun ríkisstjórnarinnar að verja 50 milljónum króna í uppbyggingu á svæðinu.

Ríkisstjórnin samþykkti nýlega að verja 850 milljónum króna í sumar til brýnna brýnna upp­bygg­ing­ar- og vernd­araðgerða á ferðamanna­stöðum sem eru í eigu eða um­sjón rík­is­ins. Við Geysi eru 50 millj­ón­ir eyrna­merkt­ar heild­ar­upp­bygg­ingu á svæðinu, en fjár­mögn­un verk­efn­anna er háð samþykki Alþing­is.

Garðar segir 50 milljónir hins vegar ekki nægilega mikið til að hægt verði að sinna því sem byggja þarf upp á svæðinu. „Við höfum nefnt það áður að það þarf sex til átta hundruð milljónir varlega áætlað,“ segir hann og bætir við að landeigendur séu sammála um að sá peningur eigi ekki að koma úr vasa skattgreiðenda. „En það passar ekki íslensku stofnanakerfi og það virðist ekki mega horfa á þetta með þessum hætti.“

Þá segir hann landeigendur á svæðinu ósátta við að ekki sé rætt við þá á jafningjagrundvelli. „Við höfum verið að reyna að eiga samtal við meðeigandann síðastliðin þrjú til fjögur ár um einhvers konar aðgerðir og jafnræði í þessu en það hefur því miður ekki skilað neinum árangri,“ segir hann og heldur áfram: „Það virkar greinilega þannig að stofnanir ríkisins geta ekki verið minnihlutaeigendur á svona stöðum því þær eru ekki tilbúnar í að ræða við eigendur á jafningjagrundvelli.“

Ferðaþjónustan borgi frekar en skattgreiðendur

Garðar bendir á að íslenskir skattgreiðendur eigi að borga fyrir uppbyggingu á ferðamannastöðum á meðan ferðaþjónustuaðilar og erlendir gestir þurfi ekkert að greiða. „Íslenskur almenningur er að borga á sjötta þúsund krónur til rekstrar þriggja þjóðgarða og uppbyggingar á ferðamannastöðum á meðan ferðaþjónustuaðilar greiða ekki krónu og erlendir gestir greiða ekki krónu. Ætlar íslenski skattgreiðandinn í alvöru að sætta sig við að borga niður ferðaþjónustuna með þessum hætti?“

Hann heldur áfram og segir að með auknum fjölda ferðamanna geti þetta orðið skattgreiðendum ofviða. „Hvað ætlum við að gera eftir fimm ár þegar við erum með tvær milljónir gesta? Ætlum við þá að sleppa rekstri löggæslu? Ætlum við að seppa rekstri sjúkrahúsa eða menntastofnanna? Hverju ætlum við að sleppa þegar þetta verður okkur ofviða?

Garðar segir það sitt álit að ferðaþjónustan og ferðamenn beri þennan kostnað en ekki skattgreiðendur, en segist ekki hafa fengið undirtektir við þetta sjónarmið. Hann segir landeigendur þó hafa átt ágætt samstarf með Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Sigurði Inga Jóhanssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en þau fái litlu til leiðar komið. „Við landeigendurnir stöndum saman um að reyna að koma þessu til betri vegar.“

Frétt mbl.is: 850 millj­ón­ir í brýn verk­efni

Frétt mbl.is: Í hvað fara milljónirnar 850?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert