„Sögðu fuck off og keyrðu burt“

Beðið var um aðstoð lögreglu vegna ógnandi manna í smáíbúðahverfinu.
Beðið var um aðstoð lögreglu vegna ógnandi manna í smáíbúðahverfinu.

Eldri kona í Smáíbúðahverfinu fékk á föstudaginn heimsókn frá manni sem sagðist vera Íri. Sá bauðst til að laga garðinn hennar fyrir eina milljón króna. Konan vildi ekki standa í þessu en átti erfitt með að segja nei og bauðst hún til að heyra í manninum í síma síðar. Hann léði ekki máls á því og sagðist koma daginn eftir til að hefja framkvæmdir í garðinum. Rúna Hjaltested, dóttir konunnar, deildi atburðalýsingu á facebook, öðru fólki til varnaðar.

„Við vöktum hana og húsið. Mömmu var mjög brugðið og var mjög hrædd út af þessu,“ segir Rúna í samtali við mbl.is. „Daginn eftir fyrstu heimsóknina komu þeir aftur og þá voru dóttir mín og kærastinn hennar fyrir framan húsið þegar mennirnir birtust. Þeir komu því aftur þó mamma hefði ekki viljað það.“

Orðljótir og dónalegir

Dóttirin tilkynnti mönnunum að þau vildu ekki eiga nein viðskipti við þá. „Þá urðu þeir mjög orðljótir og dónalegir, maður er alveg undrandi á þessu. Dóttir mín ætlaði að hringja á lögregluna en þetta gekk fljótt yfir. Að lokum keyrðu þeir burtu og kvöddu með því að segja „fuck off.““

Rúna segist ekki vera viss um frá hvaða landi mennirnir séu en þeir séu allir erlendir. „Sá fyrsti sem kom sagðist vera frá Írlandi. Mamma hefur margoft komið þangað en gat ekki greint írskan hreim og við erum ekki viss hvaðan þeir koma.“

Greinilega fjárglæframenn

Hún segir augljóst að þetta séu fjárglæframenn sem ætli að féfletta fólk sem á erfitt með að verja sig. „Það liggur í augum uppi. Hins vegar er lítið hægt að gera á meðan þeir hafa ekki brotið af sér. Þeir gerðu það ekki í þessu tilviki vegna þess að við stoppuðum þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert