Aðalmeðferð í máli BHM gegn ríkinu í dag

Félagsmenn BHM hafa mótmælt verkfallslögunum harðlega.
Félagsmenn BHM hafa mótmælt verkfallslögunum harðlega. mbl.is/Eggert

Aðalmeðferð í máli Bandalags háskólamanna (BHM) gegn íslenska ríkinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi aðeins yfir í einn dag.

BHM stefndi ríkinu vegna lagasetningar, sem var samþykkt á Alþingi hinn 13. júní síðastliðinn, sem bannar verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM. Málið var þingfest 19. júní og var síðan tekið fyrir seinasta fimmtudag, en það fékk flýtimeðferð.

BHM gerir þær dómkröfur að stéttarfélögum innan sinna raða verði heimilt að efna til verkfalls, þrátt fyrir verkfallslög ríkisstjórnarinnar, og að kjör félagsmanna verði ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms, eins og lögin kveða á um.

Ástráður Haraldsson fer með málið fyrir hönd BHM en Einar Karl Hallvarðsson fyrir hönd ríkisins. Símon Sigvaldason dæmir í málinu.

Að mati BHM felur lagasetningin í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra og löglegra félagasamtaka. Bendir bandalagið á að frelsi stéttarfélaga til að standa að gerð kjarasamninga sé varið af 74. grein stjórnarskrárinnar og að stjórnvöld og löggjafinn hafi afar takmarkaðar heimildir til að hafa afskipti af starfsemi slíkra félaga. Með lagasetningunni hafi ríkið farið út fyrir þær heimildir.

Afskiptin almennt óheimil

Ríkið hafi einnig brotið gegn rétti aðildarfélaga BHM þannig að fari í bága við ákvæði 11. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), en í því ákvæði segir að mönnum sé rétt að mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

Í 2. tl. greinarinnar er áréttað að réttur þessi skuli ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. BHM telur að engin sú vá hafi verið fyrir dyrum að réttlætti svo almennt og víðtækt inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi sín, eins og gert hafi verið með lögunum.

Þá telur BHM að stjórnvöldum séu afskipti af verkfallsrétti og samningsfrelsi stéttarfélaga almennt óheimil. Í ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. MSE felist almennt bann við afskiptum stjórnvalda og löggjafans af lögmætri starfsemi almennra félaga.

Einnig er það mat BHM að með lagasetningunni hafi ríkið brotið gegn samþykktum ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98, og gegn 6. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu.

Verkföllin ollu miklu tjóni

Í greinargerð sem fylgir lögunum sem deilt er um í málinu segir að verkfall stéttarfélaga innan BHM hafi valdið miklu tjóni á mörgum sviðum. Viðræður við félögin hafi reynst árangurslausar og launakröfur þeirra séu langt umfram þær launahækkanir sem samið var um við stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins undir lok maímánaðar.

Er bent á að aðgerðir stéttarfélaganna hafi beinst sérstaklega að starfsemi sjúkrahúsa og tengdri starfsemi sem ekki geti varist eða brugðist við aðgerðum nema í algerri neyð. Fram hafi komið í minnisblaði embættis landlæknis til ríkisstjórnarinnar að ástandið sem hefði skapast muni koma til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið.

Í greinargerðinni segir jafnframt að fyrir utan aðstæður á heilbrigðisstofnunum megi nefna að verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættum hafi stöðvað þinglýsingar skjala og útgáfu leyfa af ýmsu tagi. Þetta hafi valdið margháttuðum erfiðleikum. Verkfall dýralækna hafi einnig komið niður á matvælaframleiðendum og velferð dýra.

Er jafnframt bent á að með aðgerðum BHM hafi bandalagið nýtt rétt sinn til verkfallsaðgerða. Samningsfrelsið og verkfallsrétturinn hafi að mati ríkisstjórnarinnar náð tilgangi sínum upp að því marki sem nýtur verndar 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. MSE. Hins vegar hafi verið komið að því tímamarki að aðgerðirnar stefndu almannahagsmunum og réttindum annarra í hættu. Hafi ríkisstjórninni verið nauðugur einn kostur að stöðva þær.

Alþingi samþykkti að setja lög á verkfall BHM og Félag …
Alþingi samþykkti að setja lög á verkfall BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 13. júní síðastliðinn. mbl.is/Styrmir Kári
Kjaraviðræður BHM og ríkisins hafa reynst árangurslausar.
Kjaraviðræður BHM og ríkisins hafa reynst árangurslausar. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert