Jón Þór hættir á þingi

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata mun ekki taka sæti á þingi í haust. Ásta Helgadóttir varaþingmaður flokksins mun þess í stað taka hans sæti.

Jón Þór hefur þegar upplýst um þetta fyrir nokkru síðan. Aðspurður hvort aldrei hafi komið til greina að „hætta við að hætta,“ segir hann að svo sé ekki. „Þetta er rétt ákvörðun. Mínir styrkleikar liggja í því að koma verkefnum af stað og gera þau sjálfbær. Það hef ég gert aftur og aftur í mínu grasrótarstarfi. Það er nóg af slíkum verkefnum framundan hjá mér, bæði í mínu lífi og hjá Pírötum. Ég vel strategískasta verkefnið hverju sinni. Ef ég geri það, þá er ég í fjórða eða fimmta gír. Um leið og ég er ekki nauðsynlegur í því sem ég geri þá dett ég í lægri gír og ætti að fara að gera eitthvað annað,“ segir Jón Þór.

Hann mun áfram taka þátt í starfi Pírata en nú í sjálfboðastarfi. Hann mun meðal annars leggjast í það verkefni fyrir næstu kosningar að finna leið til að fá fólk á kjörstað. 

„Það að fá fólk á kjörstað er verkefni sem verður að fara afstað. Það er ekki langt í næstu kosningar, 2 ár eru stuttur tími í stjórnmálum. Við höfum þegar fundið einhverja vinkla á því verkefni en við verðum að fara að leggjast í skipulagningu, setja upp úthringiver og þjálfa fólk.“

Nú í sumar mun Jón Þór gera samantekt af reynslu sinni á þingi og gera aðgengilegt landsmönnum, til dæmis í texta og myndböndum. „Ég ætla að sýna hvar völdin og ábyrgðin liggja og hvern á að þrýsta á til að koma hlutunum áfram. Ég vil sýna hvernig ferlið er, til dæmis hvar dagskrárvaldið liggur. Það vita það ekki margir að dagskrárvaldið liggur 100% hjá meirihlutanum. Best væri ef landsdmenn hefðu málskotsréttinn, um leið og það gerist þá er réttlæting minnihlutans til að stöðva mál miklu minni því landsmenn gætu stöðvað málin sjálfir,“ segir Jón Þór. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert