Náttúrulaug í Hvalfirði stendur tóm

Laugin stendur nú tóm.
Laugin stendur nú tóm. Ljósmynd/Art Bicnick fyrir Grapevine.is

Margir ferðamenn og aðrir náttúruunnendur hafa farið fýluferð að lítilli náttúrulaug í Hvalfirði undanfarið, en í stað þessa að laugin sé full af vatni hefur hún staðið tóm. 

Laugin er staðsett á landi í Hvammsvík með útsýni yfir Hvalfjörðinn og hafa fjölmargir lagt leið sína þangað síðustu ár til að njóta náttúrufegurðarinnar. Undanfarið hefur þó ekkert vatn verið í lauginni og slöngu sem þar er venjulega staðsett hefur ekki verið að finna.

Myndin sem fylgir fréttinni var tekin á svæðinu í desember sl. af ljósmyndaranum Art Bicnick, en eins og sjá má stóð hún tóm þá.

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, á landið í Hvammsvík, sem áður var í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. „Ég lokaði lauginni í fyrra vegna framkvæmda á svæðinu en stefni að því að opna aftur vonandi næsta sumar,“ segir Skúli í skriflegu svari til mbl.is aðspurður um það hvers vegna laugin standi tóm. 

Það er því ljóst að lauginni var ekki lokað vega stríðs straums ferðamanna, en eins og mbl.is sagði frá um helgina eru landeigendur að Ási í Hruna­manna­hreppi orðnir þreyttir á ferðamannastraumi í náttúrulaug þar á svæðinu og íhuguðu jafnvel að fara með jarðýtu á laugina. 

Margar náttúrulaugar hér á landi eru einmitt staðsettar á einkalóðum, en eftir útgáfu bókarinnar Heitar laugar á Íslandi fyrir nokkrum árum síðan hefur ferðamannastraumur í þessar laugar aukist mikið. Landeigendur að Ási hafa verið ráðalausir vegna þessa en umgengni við laugina hefur oft á tíðum verið mjög slæm.

Nokkrar náttúrulauganna um landið eru þó opnar almenningi, og við Gömlu laugina á Flúðum hefur jafnvel verið opnaður ferðamannaiðnaður.

Sjá einnig: Íhugaði að fara með jarðýtu á laugina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert