Nefndin klofin í máli lögreglumannsins

Það er niðurstaða meirihluta nefndar sem fór með mál lögreglumanns sem var vikið frá störfum í fyrra að lögreglustjóra hafi ekki átt að veita lögreglumanninum lausn frá störfum um stundarsakir. Þriðji nefndarmaðurinn taldi hins vegar að lögreglustjóri hafi staðið rétt að málum.

Nefndin sem skipuð var samkvæmt 27. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins klofnaði í afstöðu sinni. Tveir fulltrúar hennar af þremur telja að lögreglustjóra hafi ekki verið rétt að veita lögreglumanninum lausn frá störfum um stundarsakir.

Sjá frétt mbl.is: Lögreglumanninum ranglega vikið úr starfi

Þriðji nefndarmeðlimurinn, sem tilnefndur var af ráðuneytinu, skilar ítarlegu séráliti og telur að lögreglustjóranum hafi verið rétt að veita honum lausn frá störfum.

Er það niðurstaða meirihlutans að sú háttsemi sem lögreglumaðurinn var grunaður um hafi ekki uppfyllt skilyrði laga til að rétt væri að veita honum lausn frá störfum. lögreglustjórinn veitti honum lausn með tilvísun til þess að hann væri grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. grein almennra hegningarlaga. 

„Þrátt fyrir að um sé að ræða grun um tiltekin refsiverð brot, verður að telja, þegar litið er til eðlis og alvarleika umræddra brota eins og þeim er lýst í ákæru, að verulegur vafi sé fyrir hendi að þau uppfylli skilyrði 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga. [...] Verður eðli máls samkvæmt að túlka slíkan vafa viðkomandi embættismanni í vil,“ segir í áliti meirihlutans.

Í sérálitinu segir að ekki leiki vafi á um að lögreglumaðurinn uppfylli fyrra ákvæði umræddrar lagagreinar þar sem hann var grunaður um brot í opinberu starfi sem varðar allt að tveggja ára fangelsi annars vegar og allt að þriggja ára fangelsi hins vegar.

Aftur á móti leiki vafi á um hvort umrætt meint brot varði sviptingu réttinda samkvæmt 68. grein. Miðað við fyrri úrlausnir nefndarinnar telur því nefndarmeðlimurinn sem skilaði sérálitinu að lögreglumaðurinn hafi uppfyllt ákvæði 68. gr. þar sem hann taldi að meint brot lögreglumannsins varðaði embættismissi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert