Skrifar Pútín bréf vegna hvalveiða Íslendinga

Pamela Anderson er ekki ánægð með hvalveiðar Íslendinga.
Pamela Anderson er ekki ánægð með hvalveiðar Íslendinga. Ljósmynd/Wikipedia

Bandaríska leikkonan Pamela Anderson hefur skrifað persónulegt sendibréf til Vladimir Pútin forseta Rússlands þar sem hún biður forsetann um að grípa til aðgerða vegna hvalveiða. Anderson vill að hann komi í veg fyrir að hvalkjötsfarmur Hvals hf., sem nú er um borð í flutningaskipinu Winter Bay í Tromsö í Norður Noregi, komist með aðstoð Rússa um siglingaleiðina norðan Rússlands áleiðs til markaða í Japan. 

Sagt er frá þessu á vef Skessuhorns og er vitnað í vef Sea Shepherd en þar er bréfið sjálft jafnframt birt. 

Eins og fram kemur í frétt Skessuhorns sigldi Winter Bay frá Hafnarfirði fyrir réttum mánuði síðan, að því að talið er með um 1.700 tonn af frystu langreyðakjöti um borð, og hélt það til Tromsö. Síðan hefur skipið legið þar við bryggju. Skipið Sam Simon sem er gert út af Sea Shepherd birtist þar 29. júní síðastliðinn að því er virðist til að vekja athylgi á því að hvalkjötsfarmurinn væri um borð í Winter Bay. Eftir stutt stopp í Tromsö hélt Sam Simon á brott.

„Sea Shepherd hafði þá í heitingum að samtökin ætluðu að koma í veg fyrir að hvalkjötið kæmist áfram til Tromsö. Sam Simon lónaði í tvo sólarhringa úti á opnu hafi norður af Tromsö eins og skipið sæti þar fyrir Winter Bay. Þess var vandlega gætt af skipum norsku strandgæslunnar. Um liðna helgi sigldi Sam Simon síðan til Færeyja þar sem skipið er nú. Sea Shepherd er nú með tvö skip og hóp fólks í Færeyjum til að mótmæla grindhvalaveiðunum þar,“ segir á vef Skessuhorns. 

Pamela Anderson er þekktur dýraverndunarsinni og í fyrra heimsótti hún Danmörku og Færeyjar til að andmæla grindhvalaveiðum Færeyinga. 

Putin fékk bréf frá Pamelu Anderson á dögunum.
Putin fékk bréf frá Pamelu Anderson á dögunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert