Snjór á Laugaveginum í allt sumar

Frá hlaupinu í fyrra.
Frá hlaupinu í fyrra. mbl.is/Eva Björk

„Það er mikill snjór í kringum Hrafntinnusker. Það má samt segja að það sé enginn snjór á Laugaveginum nema þar,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Verður snjór á svæðinu í allt sumar

Laugavegshlaupið fer fram laugardaginn 18. júlí í 19. sinn. Hlaupið er 55 km utanvegahlaup en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands. Göngugarpar eru venjulega 4 daga á leið sinni um Laugaveginn en hröðustu hlaupararnir fara leiðina á 4-5 klukkustundum. 

„Það verður snjór á þessu svæði í allt sumar þannig að aðstæður verða öðruvísi en þær hafa verið og líklega erfiðari. Þarna verður snjór og jafnvel bleyta en fólk þarf að vera vel búið.“ Páll segir hlutann í kringum Hrafntinnusker sem er þakinn snjó vera 10 kílómetra langan. „Þetta er samt hluti af leiðinni sem hlauparar hafa oft gengið vegna þess að þetta er upp í móti.“

Höfum ekki áhyggjur

Svava Oddný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá ÍBR, segir að þar á bæ bíði menn eftir því að snjórinn bráðni. „Snjórinn er meiri en hann hefur verið undanfarin ár og það er búist við því að hann verði áfram. Maður veit það búandi á Íslandi hvernig maður upplifir snjóinn. Hann situr í bunkum en er ansi fljótur að fara þegar sólin skín eða þegar það rignir svo það er óþarfi að hafa of miklar áhyggjur af því.“

Laugavegshlaupið er mikil þolraun og Svava segir að hlauparar búi sig vel undir átökin en skipuleggjendur þurfi líka að undirbúa sig. „Við flytjum heila tjaldborg í Húsadal þar sem fólk getur hvílt sig að loknu hlaupi. Einnig verðum við með drykkjarstöðvar, hjálparsveitarbíla og starfsmenn á leiðinni. Viðbúnaðurinn er því mikill og við búum vel að reyndu starfsfólki sem þekki aðstæður vel.“

„Veit aldrei hvernig þetta verður“

Hún bendir á að hlaupið sé einstakt því jafnvel þó fólk hafi hlaupið áður viti það aldrei hverju það getur átt von á. „Þetta er alltaf jafn spennandi. Verður gos, vatnavextir, snjór, rigning eða sól? Það vitum við aldrei fyrir fram. Eitt skiptið var of mikil sól og ég held að það hafi reynst erfiðast! Maður veit aldrei hvernig þetta verður og það er með ólíkindum hvað við eigum mörg tilbrigði af veðri og ævintýrum á Íslandi.“

Ferðafólk almennt vel búið

Sigrún Tómasdóttir, skálavörður í Álftavatni, segir meiri snjó á Laugaveginum en venjulega, miðað við árstíma. „Allir skálar eru opnir og það er hægt að tjalda alls staðar en það er til að mynda snjór á tjaldstæðinu í Hrafntinnuskeri.“

Aðspurð segir hún að ferðafólk sé almennt vel búið. „Auðvitað kemur fyrir að fólk sé illa búið en það er minna um það en ég bjóst við. Eitthvað er um léleg tjöld sem getur verið slæmt því það geta komið sterkar vindhviður.“

Eins og staðan er núna er veður gott í Álftavatni. „Menn eru almennt brattir. Það er komið vatn á alla skálana og þetta lítur vel út. Það var klaki á vatninu fyrir tíu dögum en það er allt bráðnað núna og við erum bjartsýn á að sumarið verði flott.“

Landmannalaugar.
Landmannalaugar.
Það verður snjór í kringum Hrafntinnusker í allt sumar.
Það verður snjór í kringum Hrafntinnusker í allt sumar. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert