Tókst að bjarga mannslífi

mbl.is/Hjörtur

Fjórum sinnum í liðinni viku var lögregla og sjúkralið á Suðurlandi kallað til vegna alvarlegra bráðaveikinda.   Þar af í tvígang þyrla LHG.  Í einu tilvikinu báru endurlífgunartilraunir árangur og að því er best er vitað mun viðkomandi að líkindum ná heilsu að fullu.  Þar réði úrslitum skyndihjálparkunnátta annarra heimilismanna.  Í hinum tveimur tilfellunum brugðust viðstaddir hárrétt við og hófu þegar endurlífgun. Í öðru tilvikinu tókst að ná hjarta viðkomandi í takt á ný en ekki reyndist unnt að  bjarga viðkomandi og þau bæði úrskurðuð látin á sjúkrahúsi í Reykjavík. 

Í fjórða tilfellinu reyndist viðkomandi látinn þegar að var komið.  „Við hvetjum fólk til þess að sækja námskeið í skyndihjálp því við vitum aldrei hvenær slíkrar þekkingar getur verið þörf.  Slík námskeið eru t.d. reglulega í boði RKÍ og upplýsingar um þau að finna á vefnum skyndihjalp.is,“ segir í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Sjö umferðarslys

Sjö umferðarslys tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í nýliðinni viku. 58 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur og fimm voru teknir fyrir ölvunarakstur. Fjórir voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar fyrir síðustu viku.

Hvað varðar slysin þá sprakk húsbíll í vindi í Öræfum og eins valt bifreið við Brest í Vestur-Skaftafellssýslu. Í báðum tilfellum reyndust meiðsl  á fólki minniháttar en bílarnir ónýtir.   Eins fuku tveir húsbílar í Öræfum í sömu vindhviðunni um kl. 14:30 þann 5. júlí. Þrír farþegar voru fluttir til Hafnar þar sem gert var að sárum þeirra.

En dýr koma einnig við sögu í dagbók lögreglunnar því í tólf skipti var leitað til lögreglu vegna mála sem varða dýra- eða húsdýrahald. 

Tvisvar var um að ræða lausagöngu nautgripa við þjóðveg.  Fimm sinnum var um að ræða lausagöngu hesta við þjóðveg eða í þéttbýli.  Þrjú málanna vörðuðu sauðfé, í tveimur þeirra var ekið á lömb en þriðja tilkynningin var vegna lausagöngu fjár við þjóðveg 1. Í tvígang vörðuðu málin hunda sem fundust lausir á víðavangi. 

Þann 1. júlí voru björgunarsveitir fengnar til að aðstoða erlenda stúlku sem hafði slasast á fæti í Hrafntinnuskerjum við að komast undir læknishendur. Þá brenndist erlendur ferðamaður á fæti þann 4. júlí á tjaldsvæði við Geysi þegar vökvi úr potti helltist yfir fætur hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert