Bíllinn klár og kominn í gám

Við afhjúpun TS15 á Háskólatorgi í apríl.
Við afhjúpun TS15 á Háskólatorgi í apríl. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á morgun leggur hópur nemenda við Háskóla Íslands af stað til Englands en þar munu þeir taka þátt í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppninni Formula Student sem haldin verður á Silverstone-kappakstursbrautinni. Liðið HÍ, sem heitir Team Spark, vann til verðlauna á brautinni í fyrra.

Kappakstursbíll liðsins, TS15, er nú tilbúinn og kominn til Englands. Bílinn var afhjúpaður í apríl og var þá greint frá því að TS15 yrði þrefalt aflmeiri en bíll liðsins á síðasta ári.

Fyrri frétt mbl.is: Sjöfalda spennuna og þrefalda aflið

„Það sem er búið að gerast síðan við afhjúpum bílinn í apríl er í raun og veru það að við kláruðum bílinn. Hann fór í gám fyrir þremur vikum síðan og til Englands.Við ákváðum að það fylgdi því of mikið vesen að flytja bílinn með flugi og ákváðum að flytja hann með gámi. En þá töpum við náttúrulega þeim þrem vinnuvikum sem þarf í flutningana,“ segir Aðalheiður Guðjóns­dótt­ir, liðstjóri Team Spark í sam­tali við mbl.is.

Aðspurð hvernig það gekk að klára bílinn segir Aðalheiður það hafa gengið nokkuð vel. „Það gekk bara vel. Það kemur samt auðvitað alltaf eitthvað upp á og þetta er alltaf meiri vinna en maður heldur, bara eins og gengur og gerist.“

Tæp­lega 40 nem­end­ur í verk­fræðideild­um Há­skóla Íslands hafa unnið að þróun og smíði kapp­akst­urs­bíls­ins síðan í haust. Var það m.a. gert í sam­starfi við nem­end­ur úr Lista­há­skóla Íslands. Að baki bíln­um liggja mörg þúsund vinnu­stund­ir. Aðalheiður segir að hópurinn sé mjög vel stemmdur en síðustu þrjár vikur hafa þau verið að undirbúa keppnina sjálfa.

„Við erum með þrjár kynningar sem í rauninni gilda meira í stigum en að keyra bílinn. Síðustu vikur hafa farið í undirbúning á þeim og að skipuleggja ferðina,“ segir Aðalheiður.

Aðalheiður segir að meðlimir Team Spark séu allir mjög spenntir að komast á keppnisstaðinn. „Opnunarhátíðin er á morgun en á fimmtudag byrjum við með kynningar og þá förum við í gegnum skoðun á fimmtudag. Þannig að keppnin sjálf byrjar á fimmtudag og er búin á sunnudaginn.“

Þegar blaðamaður ræddi við Aðalheiði þegar TS15 var afhjúpaður í apríl var áætlunin að gera betri bíl en í fyrra. Markmiðið var að létta bíl­inn um þriðjung, sjö­falda spenn­una og þre­falda aflið. „Öll plön hafa gengið upp að mestu leyti. Við náðum reyndar að létta hann um 85 kíló sem var aðeins undir áætlun en við erum mjög stolt af því. Það er eina markmiðið sem við náðum ekki alveg en ef maður þekkir keppnina veit maður að 85 kíló er mjög góður árangur.“

Liðið kynnir bílinn sem notaður var í keppni á síðasta …
Liðið kynnir bílinn sem notaður var í keppni á síðasta ári. Ljósmynd/Team Spark
Frá kepninni í fyrra.
Frá kepninni í fyrra. Ljósmynd/Team Spark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert