Þetta sögðu þingmennirnir

mbl.is/Styrmir Kári

Meðal þess sem þingmenn sökuðu hver annan um á nýafstöðnu þingi var kvenfyrirlitning, að kenna sig við skipulagða glæpastarfsemi og að vilja fíflagang í störfum Alþingis svo fátt eitt sé nefnt. Mörg fleiri ummæli féllu í umræðum í þinginu sem vöktu sérstaka athygli og hefur mbl.is tekið saman það sem stóð upp úr í þeim efnum.

„Skelfing er þetta nú aumt. Voðalega er nú lágt lagst þegar dregnar eru fram svona langsóttar tilraunir til þess að gera það tortryggilegt sem háttvirtur þingmaður, eins og allir aðrir í þessum sal, fagnaði fyrir fáeinum vikum síðan en sér núna væntanlega eitthvert tækifæri í því að búa til tortryggni um þetta mál eins og allt annað.“ (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra 29. júní í umræðum um áform ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshafta)

„Ég hóf ekki máls á þessu hér svona til þess að forsætisráðherra gæti komið því enn einu sinni á framfæri við þjóðina að hann væri hetja sem léti ekki kúga sig eða hóta sér. Það vitum við auðvitað öll, hann er búinn að segja það svo oft sjálfur að það liggur alveg fyrir opinberlega.“ (Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í sömu umræðu)

Sagður gjamma eins og lítill skólastrákur

„Ég tel að góður andi svífi hér yfir vötnum heilt yfir. [Það er hér] vinskapur þvert á flokka - jafnvel innan flokka er vinskapur. [...] Ég óska þess að við getum haldið áfram að rækta hér góða vináttu milli okkar þingmanna, burt séð frá pólitískum ágreiningi, því það er heilbrigt að takast á um pólitík.“ (Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, í umræðum um störf þingsins 24. júní)

„Það er gaman að sjá hve stjórnarandstaðan nýtur þess núna að vera í sviðsljósinu. Ekki naut núverandi stjórnarandstaða þess að vera í sviðsljósinu þegar hún var hér á síðasta kjörtímabili að leiða stjórn landsins. Hvernig var það? Hvernig var það þá? Hvernig var það þegar núverandi stjórnarandstaða setti lög á flugvirkja? Hvernig var umræðan hérna þá? Var það hroki og hræsni sem þá var um að ræða?“ (Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra 12. júní í umræðum um lög á verkfall BHM og hjúkrunarfræðinga eftir að stjórnarandstöðuþingmenn höfðu sakað ríkisstjórnina um kjarkleysi í málinu)

„Ef hæstvirtur fjármálaráðherra vill leggja það inn í umræðuna að þeim sem leyfa sér að andmæla ríkisstjórninni sé skítsama um sjúklinga þá vil ég biðja hann að segja það en ekki gjamma það hérna fram í eins og lítill skólastrákur.“ (Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, í umræðum 12. júní í sömu umræðu lög á verkfall BHM og hjúkrunarfræðinga)

Nýskriðnir úr fjárhagslegum torfkofum

„Ég vil meina að Íslendingar séu eiginlega nýskriðnir úr fjárhagslegum torfkofum, að við sem þjóð þekkjum fjármál mjög illa. Ekki bara þingmenn heldur líka bankamenn og líka almenningur. Og það finnst mér vera mjög alvarlegt vandamál.“ (Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, 9. júní um áform ríkisstjórnarinnar um losun fjármagnshaftanna)

„Ummæli háttvirts þingmanns Jóns Gunnarssonar hér í gær sem lýstu eins og hér hefur komið fram réttilega kvenfyrirlitningu í garð hæstvirts umhverfisráðherra og líka stækri fyrirlitningu í garð samstarfsflokksins og ráðherra hans voru auðvitað með þeim hætti að það ætti að kalla á einhvers konar endurmat á því uppleggi sem hér er fyrir hendi og að minnsta kosti verða til þess að menn endurskoði dagskrá þessa fundar.“(Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum um rammaáætlun 13. maí)

„Ég sagði hér í ræðu minni í gær að þó að menn kysu að vera með persónulegt skítkast í minn garð, háttvirtir þingmenn, þá tæki ég það ekkert nærri mér. Mér væri það að meinalausu. En það er kannski ekki alveg svo þegar háttvirtur þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, kemur hér upp og sakar mig um að hafa verið með kvenfyrirlitningu í þessu máli. Þá finnst mér of langt gengið.“ (Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi um sama mál)

„Formenn stjórnarflokkanna, doktor Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, eru með allt á hælunum. Í tveimur stærstu málum samtímans - kjaradeilunum annars vegar og slagnum við kröfuhafana hins vegar. Og til að beina ljósinu frá þeirri neyðarlegu staðreynd þá vilja þeir hafa allt í fíflagangi hér í þinginu.“ (Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, 13. júní í umræðum um störf þingsins)

Sagðir kenna sig við skipulagða glæpastarfsemi

„Í þessari skoðanakönnun kom í ljós að flokkur Pírata, það er að segja, flokkur sem kennir sig við skipulagða glæpastarfsemi, hann nýtur 30 prósent kjörfylgis miðað við skoðanakannanir.“ (Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi 23. mars um fylgisaukningu Pírata samkvæmt skoðanakönnunum)

„Þetta eru hógværar, ódýrar og einfaldar lausnir sem mundu koma okkur fram á við. Þá getum við kannski hætt þessum andskotans sandkassaleik.“ (Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, á Alþingi 18. mars í umræðum um virðingu Alþingis. Forseti þingsins brást við með því að segja þingmanninn hafa látið óviðeigandi orð falla og gekkst Helgi fúslega við því)

„Föðurleg ráðleggingin mín til forsætisráðherra, án þess að ég geri mér miklar vonir um að eftir henni verði farið, er að hann sneri sér að öðrum og þarfari hlutum eins og að reyna að hafa verkstjórn fyrir þessari ríkisstjórn sem er að gefast upp í hverju málinu á fætur öðru.“ (Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, 19. febrúar í umræðum um skiptingu bankakerfisins í kjölfar bankahrunsins)

„Ég vorkenni háttvirtum þingmanni“

„Þeir sem vekja athygli á hættunni sem steðjar að nágrannalöndum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni.“ (Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, 17. febrúar í kjölfar mikillar umræðu um þær vangaveltur hans á netinu hvort rétt væri að kanna bakgrunn allra múslima á Íslandi í kjölfar hryðjuverkaárásar í Kaupmannahöfn)

„Þvílík pólitísk gunga sem háttvirtur þingmaður Jón Gunnarsson er sem þorir ekki einu sinni... sem þorir ekki einu sinni að skrifa tillögur sínar niður á blað. Það hefur enginn séð tillögu háttvirts þingmanns, hann hefur ekki þorað að skrifa hana niður á blað. Hvar er hana að finna? Hún er bara í hausnum á háttvirtum þingmanni. Ég vorkenni háttvirtum þingmanni að vera svona mikill pólitískur heigull að þora ekki að fara fram með eigið mál.“ (Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, 22. janúar í umræðum um rammaáætlun)

„Afsakið. Þá er ég bara að þjófstarta hérna." (Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi 3. nóvember, eftir að hafa hafið ræðu um frumvarp um visthönnun vöru sem notar orku þegar enn var umræða í gangi um flutning raforku í gegnum sæstreng. Eftir að hafa barið nokkrum sinnum í bjölluna og ávarpað þingmanninn tókst forseta Alþingis loks að vekja athygli hans á mistökunum)

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mblis/Kristinn Ingvarsson
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert