Krapi og frost gætu myndast á fjallvegum

Kalt verður aðfaranótt föstudags en krap og frost gæti myndast …
Kalt verður aðfaranótt föstudags en krap og frost gæti myndast á fjallvegum. Veðurstofa Íslands

Það kólnar á landinu seinni hluta vikunnar og gæti gránað í háum fjöllum á norðanverðu landinu. Jafnframt gæti fryst á fjallvegum.

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands einskorðast frostið og slyddan við norðanvert landið. „Þetta er bara norðanvert landið, punktur,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Spurður hvort þessi kuldi gæti haft áhrif á sveitabæi á Norðurlandinu á Óli Þór ekki von á því. „Það eru náttúrulega bæir býsna hátt uppi eins og Svartárkot í Bárðardal og í Möðrudal. Þetta eru bæir sem eru í yfir 350 metra hæð yfir sjávarmáli. En ég á nú ekki von á að þessi kuldi hafi þannig séð áhrif á grasið. Það bara hægir á sér rétt á meðan kuldakastið gengur yfir og heldur sínu bara áfram.“

Fyrri frétt mbl.is: Spá slyddu og frosti

Óli Þór segir að fjallvegir gætu orðið varhugaverðir að næturlagi í kulda sem þessum. „Þar getur myndast krapi og jafnvel hálka og fólk þarf að hafa það í huga ef það er að ferðast, sérstaklega aðra nótt og aðfaranótt föstudags. Það virðist sem þær verði kaldastar og einmitt hættan þá.“

Svalt en viðunandi fyrir sunnan

Spurður hvort kalt verði á sunnanverðu landinu segir Óli Þór að það verði svalt en viðunandi. „Hér fyrir sunnan er alltaf hlýrra enda hitnar loftið þegar það er búið að fara yfir hálendið og á leiðinni niður til okkar aftur. Það verður svalt en það ætti að geta skinið einhver sól líka. Ef maður finnur sér góðan suðurvegg með skjóli verður þetta nú alveg viðunandi.“

Að sögn Óla Þórs er gert ráð fyrir norðlægum áttum fram yfir helgi. „En það kemst aðeins hlýrra loft til okkar aftur um helgina. Það munar kannski ekki miklu, það verður svalt áfram. En þá hverfur þessi frosthætta á hálendinu í það minnsta.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert