Sækja fótbrotna konu á Hesteyri

Björgunarsveitir á Ísafirði, Bolungarvík og Hnífsdal hafa nú verið sendar á Hesteyri í Jökulfjörðum til að sækja slasaða göngukonu.

Konan var á ferð með hópi og er talin fótbrotin eftir að húm missteig sig illa.

Alls eru á ferðinni 22 björgunarmenn og tveir sjúkraflutningamenn með björgunarskipinu Gunnari Friðrikssyni og tveimur björgunarbátum yfir Djúp. Áætlað er að fyrstu björgunarsveitarmennirnir komi að landi á Hesteyri nú skömmu fyrir kl. 19. 

Bera þarf hina slösuðu konu um 2-3 km leið til að koma henni um borð í björgunarskipið, samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur einnig verið kölluð út og er viðbúið að hún verði komin að slysstað klukkan 19:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert