Spá slyddu og frosti

Það gæti gert slyddu til fjalla á miðvikudag og fimmtudag.
Það gæti gert slyddu til fjalla á miðvikudag og fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norðlægar áttir verða ríkjandi næstu daga og verður napurt í veðri hjá okkur fram á helgina, sérstaklega norðan- og austanlands, segir á vef Veðurstofu Íslands. Það gæti gert slyddu til fjalla á miðvikudag og fimmtudag. Eins er viðbúið að það geri sums staðar næturfrost á hálendinu næstu nætur.

Sjá einnig: „Óþægilega nærri næturfrosti“

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s. Skýjað og sums staðar súld eða rigning við N- og A-ströndina, einkum þó norðaustanlands. Einnig skýjað allra syðst, annars bjart veður. Norðan og norðvestan 3-8 á morgun og fer að rigna á austurhelmingi landsins seinnipartinn, en yfirleitt bjartviðri annars staðar. Hiti 6 til 18 stig að deginum, hlýjast um landið SV-vert. Kalt í innsveitum norðanlands í nótt.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt, yfirleitt 3-8 m/s. Skýjað og dálítil væta fyrir norðan og austan, jafnvel slydda til fjalla. Annars bjartviðri á köflum. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast suðvestanlands, en kaldast á N-verðu landinu.

Á föstudag:
Norðaustlæg átt, 3-10 m/s. Tiltölulega skýjað og úrkoma á víð og dreif, síst þó á Vesturlandi. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Norðaustan 10-15 m/s með suðausturströndinni og norðvestanlands en hægari vindur annars staðar. Rigning suðaustan- og austanlands, annars þurrt að mestu og bjartviðri á köflum vestanlands. Hlýnar heldur.

Á sunnudag og mánudag:
Áframhald á norðaustlægum áttum með vætu öðru hverju norðan- og austanlands, en björtum köflum suðvestan- og vestanlands. Hiti 6 til 16 stig, mildast SV-til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert