Tillit tekið til systkina við umsókn á leikskóla

Frá starfinu í leikskólanum Steinahlíð í Reykjavík.
Frá starfinu í leikskólanum Steinahlíð í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári

Skóla- og frístundaráð samþykkti á síðasta fundi sínum fyrir sumarfrí að taka upp það sem kallað er systkinatillit á leikskólum.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að það sé gert með því að breyta reglum um leikskólaþjónustu með samþykkt á nýju ákvæði í reglum um þjónustuna. Því verður bætt við að börn sem „eiga systkini í umsóknarleikskóla njóta systkinatillits í viðkomandi leikskóla svo framarlega sem þeim börnum sem eru fyrir framan þau á biðlista býðst rými í öðrum þeim leikskóla sem forsjármenn setja til vara. Það er skilyrði að eldra barnið eigi eftir a.m.k. sex mánuði af leikskólagöngu sinni þegar yngra barnið byrjar í leikskólanum. Það sama gildir fyrir sjálfstætt starfandi leikskóla.“

Með reglu um systkinatillit í leikskólum er komið til móts við þau sjónarmið að mikilvægt sé að systkini á leikskólaaldri geti verið á sama leikskóla í borginni. Einnig er tryggt að reglan skerði ekki rétt barna sem eru framar á biðlista og þeim er tryggð innritun á öðrum leikskóla sem forsjármenn þeirra hafa óskað eftir. Þess má einnig geta að borgarráð samþykkti nýlega tillögu skóla- og frístundaráðs um að taka börn fædd í janúar og febrúar 2014 inn á leikskóla í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert