Ísland sýnir enga miskunn

Á blússandi ferð.
Á blússandi ferð. Facebook/Lalalong

Marco Baldissera er 27 ára gamall Ítali sem tók sig til og fór hringveginn á hjólabretti á dögunum. Baldissera kom til Reykjavíkur á sunnudaginn eftir tveggja vikna ferðalag en dularfull peysa leiddi hann til Íslands.  Á síðasta ári fór Baldisserra á hjólabretti frá Valencia á Spáni til Lissabon í Portúgal, og tók það hann einn mánuð. Kallaði hann þá ferð „Lalalong“ og var því við hæfi að kalla ferðina um Ísland „Lalalong II“.

„Margir halda að ég hafi viljað gera „Lalalong II“ á Íslandi vegna myndarinnar The Secret Life of Walter Mitty. En í raun vildi ég gera þetta á Íslandi vegna peysu sem ég fékk lánaða daginn sem ég kláraði Lalalong. Það var eitt orð saumað á peysuna og það er auðveldlega hægt að giska hvaða orð það var. Þá varð draumurinn til, að verða fyrstur til þess að fara á hjólabretti í kringum Ísland.“

Aldrei auðvelt að skora á sjálfan sig

Baldisserra byrjaði að nota hjólabretti árið 2009 þegar hann var 21 árs gamall. Hann segist ekki vera fagmaður, heldur aðeins maður sem á sér drauma.

Að sögn Baldisserra gekk ferðalagið vel en það tók tvær vikur. „Ég átti ekki von á því að hitta svona margt frábært fólk á leiðinni. Stuðningurinn sem ég fékk frá fjölskyldu minni, vinum og fólki sem einhvernveginn frétti af ferðalagi mínu hefur jafnframt verið ótrúlegur.“

Hann segir að ferðin hafi þó ekki gengið þrautarlaust fyrir sig. „Þegar maður skorar á sjálfan sig, eru hlutirnir aldrei auðveldir og þessi ferð var engin undantekining. Það voru óteljandi skipti þar sem þetta var rosalega erfitt og maður spurði sig hvað maður væri eiginlega að gera. En í hvert skipti sem hlutirnir verða erfiðir þarf maður að finna ástæðu til þess að halda áfram og sækja í jákvæða orku innan með sér. En ég held að það sé eina leiðin til þess að sjá hvort maður vill virkilega gera eitthvað eða ekki.“

Íslenskt malbik sársaukafullt

Baldisserra hóf ferð sína 21. júní við Keflavíkurflugvöll og lauk henni við Sólfarið í Reykjavík á sunnudaginn. Þegar Baldisserra er spurður hvernig tilfinningin var að koma í mark segir hann ekki hafa fundið fyrir einhverri sérstakri tilfinningu. „Í sannleika sagt þá man ég ekki eftir einhverri ákveðni tilfinningu fyrir utan að ég vildi komast í heita sturtu, borða og sofa.“

Hann segir að það sé mikilvægt að virða náttúruöflin á ferðalagi sem þessu enda stjórna þau öllu. „Það þarf að virða náttúruna, annars lendir maður í vandræðum,“ segir Baldisserra. „Ég komst líka að því að íslenskt landslag hjálpar ekki geðheilsunni í svona ferðalagi því maður ferðast svo hægt á hjólabrettinu og það er ekki hægt að fara af hringveginum. Maður sér ekkert nema steina, akra, kindur, hæðir og vatn í öllum myndum. Síðan hefur þetta stöðuga dagsljós líka áhrif. Mér leið eins og ég væri farstur á sama staðnum í margar aldir, eins og í völundarhúsi þar sem þú kemst ekkert áfram. Andlega séð getur það orðið pirrandi, þegar það leiðir ekki til ofsjóna. Þar að auki er íslenskt malbik er svo gróft að það verður sársaukafullt,“ segir Baldisserra.

„Ég held að ég sé ekki sá fyrsti til þess að segja að þetta land sýnir enga miskun. En hefði þetta verið auðveldara hefði ég ekki æft mig svona mikið í marga mánuði. Allt eða ekkert eins og þeir segja.“

Facebooksíða Lalalong

Peysan sem leiddi Marco til Íslands.
Peysan sem leiddi Marco til Íslands. Facebook/Lalalong
Það er meira en að segja það að fara í …
Það er meira en að segja það að fara í kringum landið á hjólabretti. Facebook
Marco gisti í tjaldi.
Marco gisti í tjaldi. Facebook/Lalalong
Hér má sjá Marco við Sólfarið á sunnudaginn.
Hér má sjá Marco við Sólfarið á sunnudaginn. Facebook/Lalalong
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka