Lög og reglur um notkun farsíma undir stýri eru um margt óljós og skiptar skoðanir um hvort nýir notkunarmöguleikar í kjölfar tilkomu snjallsíma falli undir bann við notkun farsíma. Litlu munaði að manntjón yrði þegar bifreið kom fljúgandi á móti hjólreiðamanni við Naustaveg á Akureyri í gær. Samkvæmt hjólreiðamanninum viðurkenni ökumaður bílsins að hann hefði notað símann undir stýri.
Frétt mbl.is: „Sé bíl koma fljúgandi á móti mér“
Þá lentu strætisvagn og fólksbíll í árekstri við Sæbraut fyrr í dag, en að sögn farþega um borð í strætisvagninum var bílstjórinn að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.
Frétt mbl.is: Talaði í síma án handfrjáls búnaðar
í 47.gr.a. umferðarlaga segir að „ökumanni vélknúins ökutækis sé við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar“. Ekki er útskýrt nánar í lögunum, nefndaráliti eða lagafrumvarpinu sjálfu hvað í þessari notkun felst, en líta má til þess að ákvæðið kom inn í umferðarlög árið 2001 – fyrir tilkomu snjallsíma.
„Öll notkun er bönnuð, það er sama hver hún er. Þannig er orðanna hljóðan í greininni,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir ekkert hægt að túlka ákvæðið öðruvísi. „Þetta er bara öll notkun, við kærum og beitum sektum samkvæmt því.“
Aðspurður segir hann aldur lagaákvæðisins ekki hafa áhrif á notkun lögreglunnar á því. „Þetta breytir því ekki að það dregur athygli ökumanna enn frekar frá því sem þeir eiga að vera að gera, sem er aksturinn. Þetta er því alveg ljóst í okkar huga.“ Guðbrandur bendir á að ýmis önnur ökumanna geti auðvitað einnig talist varhugaverð, þrátt fyrir að vera ekki fest í lög. „Þannig getur það að borða pylsu, varalita sig, eiga í hrókasamræðum við farþega og annað því líkt haft áhrif á einbeitingu ökumanns.“ Hann segir ljóst að andi umferðarlaga sé sá að ökumaður eigi að hafa athygli við aksturinn og báðar hendur á stýri, nema hann þurfi að nota hendur í stjórntæki ökutækisins. „Við sektum hins vegar ekki nema hægt sé að fella háttsemina undir ákvæði laganna.“
Í frumvarpi til laganna er lagt til að dómsmálaráðherra fái heimild til að setja nánari reglur um notkun annars fjarskiptabúnaðar við akstur, en þannig verði tryggt að hægt verði að setja reglur um notkun búnaðarins samfara tæknilegri þróun.
Arna Pálsdóttir, héraðsdómslögmaður og sviðstjóri skaðabótasviðs hjá Opus lögmönnum, bendir á að reglugerð af þessu tagi hafi ekki verið sett.
„Þetta er að vissu leyti snúið þar sem það er vissulega notkun á farsíma að fara á samfélagsmiðla, en hins vegar hefur slík notkun ekki verið löggjafanum í huga þegar lögin voru sett. Þá er ekki komin reglugerð sem skilgreinir þessa notkun frekar. Ég veit ekki til þess að lögreglan geti sektað menn fyrir notkun aðra en símtöl og sms skeyti,“ segir Arna.
Hún bendir aftur á móti á að varðandi bótarétt og bótaskyldu geti þessi notkun haft áhrif. „Hún getur valdið skerðingu á bótarétti og/eða endurkröfu á ökumann ef hann veldur tjóni undir vegna notkunar farsíma undir stýri í þeim skilningi að um stórfellt gáleysi væri að ræða.“
Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands, segir að í raun séu tveir túlkunarmöguleikar í boði.
„Við gætum auðvitað skýrt þetta eftir orðanna hljóðan. Þó það komi fram einhverjar tækniframfarir væri þannig ekki alltaf hægt að breyta lögunum og þessi tilvik falli því þar undir. Þannig myndum við segja að þetta sé svo mikilvægt ákvæði að eðli málsins samkvæmt hljóti háttsemin að falla þar undir,“ segir Jón Þór. Hann bendir á að Hæstiréttur hefur m.a. fellt dóm þar sem gangsetning bifreiðar er látin falla undir akstur hennar og sakfellt fyrir ölvunarakstur.
Aftur á móti bendir hann á að hér sé um refsiákvæði að ræða með tilheyrandi túlkun. „Hinn skýringarkosturinn er sá að benda á að túlka eigi ákvæðið eins og það var sett af hálfu löggjafans og miða við það ástand sem þá var. Refsiréttarfræðin segir manni að ef vafi ríkir um túlkun og heimfærslu háttsemi undir ákvæði eigi að skýra þann vafa sakborningi í vil,“ segir Jón Þór. Þannig væri hægt að benda á að lagaákvæðið sé ekki nógu skýrt og löggjafinn hefði átt að bregðast við því.
Þá bendir hann á almennt varúðarákvæði í 4.gr. umferðarlaga, en þar segir m.a. að „ökumaður skuli sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu“. Segir hann dómaframkvæmd í kringum ákvæðið hafa verið nokkuð mismunandi, stundum hafi texti þess verið talinn of óskýr til að hægt sé að sakfella á grundvelli hans, en stundum hafi niðurstaðan verið öfug.
Hann telur þó líkur á að Hæstiréttur myndi líta til tilgangs umferðarlaga, sem væri væntanlega sá að draga úr hættu. „Segja mætti að markmið löggjafans hafi verið að koma í veg fyrir þá hættu sem stafar af farsímanotkun við akstur bifreiðar. Eflaust stafar meiri hætta af því að vera að horfa á skjáinn og lesa á Facebook og því mætti færa ákveðin rök fyrir því að sá skýringarkostur sé eðlilegri.“
Jón Þór bendir hins vegar á að ekki hafi reynt á málið í Hæstarétti og því sé í raun ómögulegt að segja til um hver niðurstaðan yrði. „Þetta er ekki klippt og skorið.“