Mönnunum bjargað í land

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Búið er að bjarga tveimur mönnum úr báti fyrir utan Garðskaga. Eldur kom upp í bát þeirra nú á 11. tímanum í kvöld og komust þeir í flotgalla og biðu þar aðstoðar. Mönnunum var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti þá til Reykjavíkur.

Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út vegna málsins í kvöld. Er eldurinn kom upp var báturinn, 15 tonna plastbátur, staddur um 2 kílómetra frá Leirunni á Garðskaga. 

Samkvæmt upplýsingum hjá vaktstjóra hjá Landhelgisgæslunni er ástand mannanna talið gott.

Uppfært:

Fyrstu upplýsingar mbl.is af málinu voru þær að mennirnir hefðu farið í sjóinn er eldurinn kom upp. Þess gerðist ekki þörf og voru mennirnir enn um borð er þyrla Gæslunnar kom á svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert