„Ætluðum að stökkva í sjóinn“

Æskan GK 506 er nú við bryggju í Sandgerði
Æskan GK 506 er nú við bryggju í Sandgerði mbl.is/Reynir Sveinsson

Skipsfélagarnir tveir sem bjargað var seint í gærkvöldi þegar eldur kom upp í bátnum Æskunni GK 506 fyrir utan Garðskaga voru komnir um borð í þyrlu Landhelgisgæslu Íslands 12 mínútum eftir að þeir sendu út neyðarkall. Mennirnir eru við góða heilsu, en þreyttir líkt og blaðamaður komst að er hann náði tali af öðrum þeirra.

„Við fórum beinustu leið út og í flotgalla því við ætluðum að stökkva í sjóinn. Okkur leist ekkert á þetta,“ segir Freyr Gunnarsson, skipstjóri og annar eigandi bátsins. Með honum um borð var félagi hans Jóhann, en skömmu áður urðu þeir varir við mikinn reyk sem kom frá vélarrúmi bátsins.  

„Við drápum á, lokuðum öllu sem við gátum og tengdum slökkvitækið,“ segir Freyr. Hófu þeir félagar því næst slökkvistörf, en að sögn Freys sáu þeir þó aldrei eld um borð þótt reykur hafi verið talsverður.  

„Við þetta dró verulega úr og við héldum að við hefðum slökkt í. En þá byrjaði þetta bara aftur og við hringdum í kjölfarið á hjálp,“ segir hann.

Tvær þyrlur birtust

Landhelgisgæslu Íslands barst neyðarkall frá bátnum um klukkan hálfellefu í gærkvöldi. Þyrlurnar TF-LIF, sem var á flugi þegar kallið barst, og TF-GNA, sem ræst var út, voru sendar á vettvang. Þá var nærliggjandi bátum einnig beint á svæðið auk þess sem björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein frá Suðurnesjum, var þangað sendur með slökkviliðsmenn.

Frá því að kallið barst og þar til mennirnir voru komnir um borð í þyrlu liðu einungis um 12 mínútur. Freyr segir þá hafa beðið eftir aðstoð á dekki bátsins, tilbúnir að stökkva í sjóinn.

Spurður hvort hann telji þá hafa verið í mikilli hættu kveður Freyr nei við. „Veðrið gat eiginlega ekki verið betra. Við höfðum því ekkert miklar áhyggjur af því að stökkva í sjóinn - í flotgalla er lítið mál að bíða þar í nokkrar mínútur.“

Engu að síður segir hann það hafa verið mikinn létti þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar mættu á vettvang og þrátt fyrir að þeir félagar hafi komist í hann krappann í gærkvöldi er stutt í húmorinn þegar Freyr lýsir þyrluferðinni.

„Ég hef aldrei farið í þyrlu áður og er svolítið stór og mikill þannig að það tók mjög á að vera hífður um borð - illt í bakinu og svaf ekkert í nótt,“ segir hann.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var Æskan kæld og dregin til hafnar í Garði og þaðan í Sandgerði. Orsök eldsins er sem stendur ókunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert