Fyrsta þjóðhátíðin sem lögreglustjóri

Þrír fíkniefnahundar verða í Vestmannaeyjum og einn í Landeyjahöfn.
Þrír fíkniefnahundar verða í Vestmannaeyjum og einn í Landeyjahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

„Á meðan á hátíðinni stendur verða hér að störfum tvöfalt fleiri lögreglumenn en venjulega. Hjá okkur starfa 12 lögreglumenn en þessa helgi verða þeir 26,“ segir Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum þar sem þjóðhátíð fer fram venju samkvæmt um helgina.

Hún tók við störfum í nóvember á síðasta ári og er þetta því fyrsta þjóðhátíðin sem hún hefur yfirumsjón með sem lögreglustjóri. Þetta er þó langt í frá fyrsta þjóðhátíðin hennar enda er hún Vestamannaeyingur í húð og hár.

Reynslumikið starfslið lögreglunnar

„Skipulagningin gengur vel, við búum svo vel að vera með mjög reynslumikið lögreglulið hér í Vestmannaeyjum og svo fáum við til okkar liðsauka frá öðrum lögregluumdæmum. Þar á meðal eru margir reyndir lögreglumenn og rannsakendur,“ segir Páley. Auk lögreglumanna sér þjóðhátíðarnefndin um að manna gæslu. Þegar mestu álagstímarnir eru má búast við að um 100 gæslumenn verði að störfum í dalnum. „Við eigum gott samstarf við gæsluna og á meðal gæslumannanna eru líka nokkrir lögreglumenn. Það má líka segja það um gesti hátíðarinnar að þeir eru upp til hópa vel útbúnir, við erum ekki að fá hingað krakka undir lögaldri án alls útbúnaðar. Unga fólkið sem kemur er flest yfir tvítugu, þekkir íslenska sumarið og kemur vel útbúið. Stór hluti gesta hátíðarinnar eru einnig heimamenn og gestir þeirra en þar er aldurinn frá 0 og upp í 90, ef ekki hærri,“ segir Páley.

Þrír fíkniefnahundar á eyjunni

Áhersla verður meðal annars lögð á að taka á fíkniefnamálum á hátíðinni eins og endranær. „Við erum með einn fíkniefnahund hér í Vestmannaeyjum að staðaldri og yfir hátíðina verða hér tveir til viðbótar að störfum. Við eigum gott samstarf við önnur embætti og þar á meðal lögreglustjórann á Suðurlandi svo það verður einni hundur á honum endanum,“ segir Páley. Síðan verður einn hundur á hinum endanum,“ segir Páley og bætir við: „Við leggjum áherslu á að taka á þeim vágesti sem fíkniefnin eru.“

Áður hefur komið fram að bekkjabílarnir sem löngum hafa ferjað hátíðargesti um eyjuna hafa verið lagðir af. Páley segir það hafa legið fyrir lengi að sú hefð myndi taka enda. „Þetta á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar vörubílar voru einu bílarnir hérna í Vestmannaeyjum og leitað var leiða til að ferja fólk á milli staða. Þá voru vörubílar mun minni og ekki þessi stóru vinnutæki sem þeir eru í dag. Upphaflega voru þetta lausir bekkir á palli sem þróaðist yfir í að þeir voru festir og tjaldað yfir.

„Það er Samgöngustofa sem gefur rekstrarleyfi til fólksflutninga en mér vitandi hefur enginn reynt að sækja um leyfi fyrir fólksflutningum á vörubíl til þeirra. Það hefur legið fyrir lengi að þetta er ekki löglegt og þess vegna hefur þeim fækkað á undanförnum árum,“ segir Páley og bætir við að þeir bílar sem nú muni ferja fólkið henti líka fleira fólki. „Þeir bílar henta betur fyrir fatlaða og fyrir til dæmis fjölskyldur með barnavagna. Vörubílarnir eru mjög háir og ekki fyrir alla að komast í. Öryggið verður auðvitað alltaf að vera í fyrirrúmi svo það skal engan undra að bekkjabílaakstur líði undir lok. Ég hef átt gott samstarf við þjóðhátíðarnefnd og við byrjuðum að ræða saman í ársbyrjun og þar gerðu menn sér grein fyrir að bæta þyrfti almenningssamgöngur á þjóðhátíð þar sem þær önnuðu ekki þörfinni, það þekkja allir sem voru hér í fyrra. Það er mjög ánægjulegt að á hverju ári er unnið að því að gera betur en síðast.“ 

Páley segir einnig að unnið hafi verið að því að bæta aðgengi fyrir gangandi í dalnum og tryggja að gestir gangi ekki þar sem ekið er en þegar mikill fjöldi fer um þröngt svæði getur það reynst strembið. „Það verða einhverjar breytingar á umferð í dalnum að þessu sinni,“ segir Páley.

Fyrir hátíðina fundar lögreglustjóri með öllum viðbragðsaðilum þar sem farir verður yfir að öll atriði séu í lagi. Á meðal þeirra eru Eimskip, ISAVIA, heilbrigðisstofnunin, slökkviliðið, sjúkraflutningar, áfallateymi, prestar, félagsþjónusta, barnaverndarnefnd og fulltrúar þjóðhátíðarnefndar. 

Alls konar leyfisumsóknir berast

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum sér um að gefa út öll leyfi í kringum hátíðina og er lögreglustjóri umsagnaraðili þeirra meðal annarra. Páley segir mikið að gera fyrir hátíðina enda vilja margir komast að með sölubása og kynningarefni. „Umsóknum um leyfi fjölgar á hverju ári og vilja margir komast að með sínar vörur. Síðan eru það þessi hefðbundnu vínveitingaleyfi og lenging á opnunartímum á veitingahúsum í bænum enda mikil þörf á að þjónusta þá fjölmörgu gesti sem sækja okkur heim. Veitingahúsin sækja líka um,“ segir Páley.

Einhverjum leyfisumsóknum er hins vegar hafnað. „Á þjóðhátíð vilja margir nota tækifærið og kynna sína vöru og gefa gestum og gangandi sem getur endað með því að ógrynni af rusli verður eftir út um alla eyju. Samkvæmt lögum þarf leyfi til þess bæði að gefa og selja hluti, það er ekki hægt að mæta á einhvern grasblett og byrja að dreifa ókeypis hlutum, menn þurfa t.d. leyfi lóðarhafa og þá þarf að hafa í huga að óheimilt er að reka svona starfsemi á íbúðarhúsalóðum.“

Það er því nóg að gera hjá umsagnaraðilum en lykilatriði samkvæmt Páley er að halda reglu og að það gildi það sama yfir alla. Stærsta leyfið er svo það sem þjóðhátíðarnefndin sjálf fær til þess að halda hátíðina í Herjólfsdal og Húkkaraball á fimmtudagskvöldi, þá eru einnig veitt leyfi fyirr brennu, flugeldasýningum, rekstri sölubúða og því að fá að standa fyrir skemmtidagskrá á hátíðarsvæðinu.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
mbl.is/Guðmundur Sv. Hermannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert