Ísland gerði mig að fuglaáhugakonu

Ljósmynd/Jennifer M. Petty

Á ferðabloggsíðunni Stuck in Iceland er rætt við fuglaáhugakonuna Jennifer M. Petty. Hún ferðaðist hér um land í maí og júní. Það er kannski ekki rétt að kalla Jennifer áhugamann um fuglaskoðun, því áður en hún kom til landsins hafði hún hvorki mikið vit né áhuga á fuglaskoðun. Það breyttist þó þegar hún kom til Íslands.

Á þessum tíma árs eru nefnilega óvenjumargar fuglategundir hér á landi því margir fuglar „millilenda“ hér á leið sinni milli heimshluta. Á ferðalagi hennar tókst henni að sjá 68 mismunandi fuglategundir, árangur sem hún þakkar góðri bók og frábærum leiðsögumanni.

„Ég bjóst við að sjá kindur hvali og lunda. Mig dreymdi aldrei að ég myndi sjá jafnmargar fuglategundir og ég gerði,“ segir Jennifer í viðtalinu á Stuck in Iceland.

Ljósmynd/Jennifer M. Petty

Þar segir Jennifer að þegar hún ákvað að ferðast til Íslands hafi hún viljað ferðast með litlum hópi sem myndi heimsækja alla þá staði sem hana langaði að sjá. Þegar á hólminn var komið reyndist hópurinn hennar hins vegar vera hópur fuglaskoðara. „Jæja, hví ekki að slást í för með hópi fuglaskoðara,“ hugsaði hún með sjálfri sér.

Leið þeirra lá frá Reykjavík gegnum Hvalfjörð og til Stykkishólms, þar sem þau tóku ferjuna að Flókalundi. Á leiðinni stoppuðu þau á mörgum stöðum. Hún segir Mosfellsbæ, Hvalfjörð, Borgarfjörð og Deildartunguhver hafa verið bestu staðina til að finna áhugaverða fugla. „Þegar við fórum yfir hinn tignarlega Borgarfjörð höfðum við þegar séð 34 mismunandi fuglategundir,“ segir Jennifer í viðtali á Stuck in Iceland.

Viðtalið í heild inni má lesa á Stuck in Iceland.

Ljósmynd/Jennifer M. Petty
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert