Ánægja með störf forseta

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Rúmlega einn af hverjum fimm sem taka afstöðu vilja sjá Jón Gnarr sem næsta forseta Íslands. Nær 17% vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forseta en rúmlega 11% vilja að Ólafur Ragnar Grímsson gegni áfram embætti forseta Íslands. Nær 8% sjá Þóru Arnórsdóttur fyrir sér í forsetaembættinu og 6% Rögnu Árnadóttur en aðrir voru sjaldnar nefndir.

Einungis um fjórir af hverjum tíu tóku afstöðu til spurningarinnar svo meirihluti landsmanna hefur ekki myndað sér skoðun á því hvern þeir vilja sjá sem næsta forseta.

Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup.

Jón Gnarr virðist höfða frekar til karla en kvenna sem forseti, en ríflega 26% karla sjá hann fyrir sér sem næsta forseta Íslands á móti um 13% kvenna. Landsmönnum líst líka betur á Jón Gnarr sem forseta eftir því sem þeir eru yngri.

Þannig vilja rúmlega 35% þeirra sem eru yngri en 30 ára sjá Jón Gnarr sem forseta en ríflega 3% þeirra sem eru 60 ára eða eldri. Þeir sem myndu kjósa Bjarta framtíð, Pírata eða aðra flokka en nú eiga sæti á þingi, ef kosið yrði til Alþingis í dag, vilja frekar sjá Jón Gnarr sem forseta en þeir sem myndu kjósa Framsókn, Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna eða Vinstri græna. Þeir sem styðja ekki ríkisstjórnina eru líklegri til að vilja sjá Jón Gnarr sem forseta en þeir sem styðja ríkisstjórnina.

Meirihluti þeirra sem taka afstöðu er ánægður með störf Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands eða rúmlega 56%. Um fimmtungur er óánægður með störf hans, eða nær 21%, og um 23% segjast hvorki ánægð né óánægð. Þetta eru svipuð hlutföll og þegar spurt var fyrir þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert