Byggt við miðbæjarvillu

Sjafnargata 3. Húsið var byggt árið 1931 og það var …
Sjafnargata 3. Húsið var byggt árið 1931 og það var stækkað til norðvesturs fyrir um 25 árum. Það er nú stækkað í annað sinn. mbl.is/Baldur Arnarson

Það hefur vakið athygli vegfarenda í sumar að gamalt hús í rótgrónu hverfi í Skólavörðuholtinu í Reykjavík hefur tekið breytingum.

Um er að ræða Sjafnargötu 3 sem telja má eitt reisulegasta einbýlishús landsins, byggt 1931.

Skipulagssvið Reykjavíkur samþykkti í fyrrahaust að leyfa steinsteypta viðbyggingu með þaksvölum og verönd við húsið.

Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var talað um glæsilegt einbýlishús í Þingholtunum. Eldri kona sem bjó í Sjafnargötu á 20. öld gerði athugasemd við þessa lýsingu. Rétt væri að tala um Skólavörðuholtið. Er það hér með leiðrétt.

Teiknað fyrir kaupmann

Fram kom í umsögn Minjastofnunar vegna stækkunarinnar að Guttormur Andrésson húsameistari hafi teiknað húsið Sjafnargötu 3 um 1930 fyrir Pétur Guðmundsson kaupmann í Málaranum. Húsið er með brotnu hálfvalmaþaki. Árið 1990 var samþykkt forstofuviðbygging við NV-gafl hússins.

Guðmundur Oddur Víðisson arkitekt teiknar nýju viðbygginguna. Samkvæmt fasteignaskrá var húsið 213 fermetrar fyrir stækkunina og bætast við 76 fermetrar með viðbyggingunni. Húsið verður því alls um 290 fermetrar.

Það stendur á 915 fermetra lóð.

Eigendur hússins eru hjónin og fjárfestarnir Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir.

Fram kom í Morgunblaðinu í apríl sl. að Sigurbjörn væri stjórnarformaður í nýju fjármálafyrirtæki, Fossar markaðir, sem hann á 60% hlut í ásamt Aðalheiði.

Sagði þar að Sigurbjörn hafi undanfarna tvo áratugi starfað á fjármálamörkuðum í New York, Hong Kong, Tókýó og London, nú síðast sem yfirmaður hlutabréfaviðskipta Barclays í Evrópu.

Fram kom í fréttaskýringu Harðar Ægissonar, viðskiptaritstjóra DV, í apríl, að Sigurbjörn hafði sem samsvarar um 3,3 milljörðum króna, á tímabilinu frá 2005 til 2007, í laun og þóknun sem yfirmaður afleiðuviðskipta og einn af framkvæmdastjórum bandaríska stórbankans Lehman Brothers.

Þau hjónin, Sigurbjörn og Aðalheiður, staðgreiddu húsið árið 1998. Fasteignamat hússins er um 93 milljónir króna. Eftir stækkunina og aðrar endurbætur á húsinu má hins vegar ætla að markaðsverð hússins verði ekki undir 150 milljónum króna.

Gott pláss verður fyrir garðveislur á nýju svölunum.
Gott pláss verður fyrir garðveislur á nýju svölunum. mbl.is/Baldur Arnarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert