Fékk fjóra lítra af vökva í æð

Annie Mist Þórisdóttir.
Annie Mist Þórisdóttir. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

„Stemningin hefir nú verið betri,“ segir Annir Mist Þórisdóttir, sem þurfti að draga sig úr keppni á Heimsleikunum í crossfit. „Þetta er í fyrsta skiptið sem ég hef þurft að draga mig úr keppni og skrýtið að leikarnir séu búnir. Ég fékk ekkert „closure,“ því ég kláraði þá ekki. Maður er búinn að vinna í mörg ár að því að vinna leikana. Árið snýst um að vera tilbúin akkúrat í þessari viku en svekkjandi að maður geti ekki sýnt hvað maður getur gert.“ 

Annie segist þó geta huggað sig við að hún hafi í rauninni ekki getað gert neitt öðruvísi til að koma í veg fyrir það sem henti hana. „Þetta voru óviðráðanlegar aðstæður sem ég hafði enga stjórn á. Ég gat ekki annað en dregið mig úr keppni,“ segir Annie.

Mjög mikill hiti á vellinum

Í fyrstu keppninni, á föstudeginum, var tiltölulega löng æfing, svokölluð Murph-æfing. Þar þurfa keppendur að hlaupa eina mílu í þyngingarvesti. Eftir það þurfa keppendur að ljúka 100 upphífingum, 200 armbeygjum og 300 hnébeygjum og hlaupa eina mílu aftur í lokin.

„Mér leið mjög vel og drakk nóg af vatni því ég veit hversu erfitt það er að gera þetta í sólinni. Hlaupið og upphífingarnar gengu vel.“ Á vellinum myndaðist hins vegar mjög mikill hiti, hátt í 40 gráður þegar keppendurnir gerðu armbeygjur og hnébeygjurnar. „Mér tókst að rusla mér einhvern veginn í gegnum þetta og leið ágætlega í gegnum armbeygjurnar. Síðan fór mig að svima,“ segir Annie Mist.

Átti erfitt með að hlaupa

Hún segir að eftir hnébeygjurnar hafi hún reynt að hlaupa af stað en átt erfitt með að hlaupa. „Ég átti erfitt með að fókusa augunum og stjórna líkamanum. Einhvernveginn kom ég mér í gegnum stóran hluta af hlaupinu en man eiginlega ekki eftir seinni hlutanum af því og man lítið fyrr en eftir að ég er komin inn á sjúkrasvæðið.“

Hún segir að þá hafi hitastig líkama hennar verið komið í 38,5 gráður, sem er töluvert yfir eðlilegum líkamshita. „Ég var utan við mig, átti erfitt með að hugsa og hef núna verið að rifja upp hvað gerðist. Ég endaði á að fá tvo og hálfan lítra af vökva í æð, en það kom aldrei til greina fyrir mig að hætta.“

Annie Mist segir að hún hafi komist á fætur hálftíma áður en keppnin hélt áfram. Þar sem ástand nýrnanna hennar var ekki slæmt hafi hún haldið áfram keppni. „Ég mátti fara út og tókst að ýta mér í gegnum föstudaginn.“ Síðan tóku fleiri prófanir við.

Enn verri á laugardeginum

„Svo vaknaði ég á laugardeginum og var þá ennþá verri. Það eru tvær tegundir af ofhitnun, ég var með nógu mikið af söltum í líkamanum, ég var bara búin að missa of mikið af vökva, vöðvarnir náðu ekki að jafna sig og ég átti erfitt með að hreyfa mig þegar ég vaknaði á laugardeginum,“ segir Anni Mist.

„Ég endaði á að fá einn og hálfan lítra af vökva í æð í viðbót á laugardagsmorgni,“ segir Annie Mist og hlær góðlega þegar blaðamaður getur ekki leynt viðbrögðum sínum. Hún fór eftir sem áður út á völlinn aftur og hélt áfram að keppa. „Ég hef alltaf trúað því að hugurinn gefist upp á undan líkamanum. En það sem kom fyrir mig þarna í fyrsta skipti var að ég var alveg orkulaus og átti erfitt með að láta líkamann stjórnast,“ segir Annie Mist,

Ekkert virkaði eins og það átti að gera

Hún segist vön því að keppa í hita, en við það að ofhitna á föstudeginum hafi hún orðið mjög viðkvæm fyrir hita næstu daga. „Um leið og ég var komin í hitann á laugardeginum fór mér að líða skringilega og var að reyna að jafna mig en gaf líkamanum ekki tíma til að jafna sig,“ segir Annie Mist, og nefnir sem dæmi að hún hafi klúðrað æfingum sem hún hafi getað gert alla tíð síðan hún var tvítug.

„Mér leið eins og ég væri ekki í réttum líkama. Ekkert virkaði eins og það átti að gera. Ég fann það að þegar ég fór heim á laugardagskvöldinu gat ég eiginlega ekkert sofið, líkaminn var allt of heitur og mér var illt allsstaðar,“ segir Annie Mist.

Þegar hún svo vaknaði eftir tveggja tíma svefn aðfaranótt sunnudags hafi hún fundið að hún var í enn verra ástandi en þegar hún vaknaði á laugardeginum. „Ég fann að ég gat ekki komið mér út á völl, þannig að ég varð að draga mig úr keppni,“ segir Annie Mist.

„Ég hefði ekki getað haldið áfram. Allir í kringum mig sögðu að það væri ekki gáfulegt að halda áfram og ég vil ekki vera fyrirmynd sem keppir meidd. Ég er líka að þessu því ég hef gaman af þessu. Ég nýt þess að keppa og æfa. Ég gat ekki notið þess að keppa og vissi að ég var ekki að gera mér gott,“ segir hún, en almennt er mælt með því að fólk hvíli í fimm til sjö daga og haldi sig í skugga eftir að hafa ofhitnað með þeim hætti sem hún gerði.

Hefur engin neikvæð áhrif til frambúðar

„Þetta var örugglega erfiðasta ákvörðun sem ég hef þurft að taka, en rétt ákvörðun. Ég varð ekki fyrir varanlegum skaða og er enn að jafna mig, komin með aðeins betri hreyfingu í líkamann og nýrun í góðu lagi,“ segir hún, sem býst við að verða góð eftir viku. Þetta sé hins vegar lengsta hvíld sem hún hefur tekið frá æfingum í mjög langan tíma. „Þetta á ekki að hafa nein áhrif á mig til frambúðar og ég er byrjuð að lesa mér til um hvernig maður á að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur,“ segir Annie Mist og hlær.

Hún samgleðst hinum Íslendingunum, þó svo hún hafi auðvitað sjálft viljað að sér hefði gengið betur. „Miðað við að ég þurfti að draga mig úr keppni þá hefði niðurstaðan ekki getað verið betri. Katrín Tanja er æfingafélagi minn og ég gæti ekki verið stoltari af henni. Það lætur mér líða aðeins betur.“

Njóta þess að slaka á

Fjölskylda hennar er úti hjá henni og hún segir þau bara njóta þess að slaka á næstu daga. „Síðan byrja bara æfingar á fullu. Mér leið eins og ég væri í besta formi lífs míns í ár en ég gat ekki sýnt það. Ég mun sýna fram á það á næsta ári.“

Hún segir að það hún hefði í rauninni ekki getað gert neitt öðruvísi í keppninni, annað en að koma fyrr til Bandaríkjanna og æfa í hitanum til að venja líkamann við. „Í kulda á maður auðveldara með að ná hjartslættinum niður,“ segir Annie Mist. „Þannig að það er bara hitaþjálfun,“ segir hún. „Það er eitthvað sem ég geri öðruvísi fyrir næsta ár.“

Hún segir keppnina meðal Íslendinganna orðna spennandi. „Það er ekki það að ég hafi haft áhyggjur af íslensku stelpunum - ég leit alltaf á þær áströlsku og kanadísku sem mestu samkeppnina. En, stelpurnar eru að sýna fram á svolítið annað. Gott fyrir litla Ísland,“ segir Annie Mist og hlær.

Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir
Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir
Ragnheiður Sara.
Ragnheiður Sara. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir
Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert