Íslandsmet fyrir gott málefni

Sigurjón Sigurbjörnsson setti Íslandsmet í 100 km hlaupi árið 2009.
Sigurjón Sigurbjörnsson setti Íslandsmet í 100 km hlaupi árið 2009.

„Ég er í mjög góðu formi. Ef veðrið stríðir mér ekki þá ætti þetta að vera alllt í lagi, það er eini þátturinn sem ég ræð ekki við,“ segir Sigurjón Sigurbjörnsson sem hleypur heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst til styrktar krabbameinsfélaginu. Báðir foreldrar hans létust úr krabbameini.

Sigurjón er einn best hlaupari landsins. Hann á Íslandsmetið í 100 km hlaupi og í heilu maraþoni í flokki 50+ og 55+. Hann verður sextugur á morgun og ætlar sér að setja Íslandsmet í flokki 60+ í hlaupinu í ágúst. „Markmiðið er að verða fyrsti Íslendingurinn yfir sextugu sem hleypur maraþon á undir þremur tímum,“ segir Sigurjón sem æfir nú fyrir kraftraunina.

Úthaldið breytist ekki

„Þegar ég æfi fyrir 100 km hlaup þá er ég að hlaupa um 200 km á viku í undirbúningnum. Núna er ég að hlaupa rúmlega hundrað, ég hef mest farið í 150. Ég hljóp að vísu ekki mikið í síðustu viku þar sem ég var í gönguferð en ég hjólaði töluvert. Æfingarnar hefjast hefjast svo aftur í dag og svo er keppnshlaup á morgun.“

„Aðra hverja helgi tek ég 36 km æfingu á laugardegi og svo á fimmtudögum tek ég hraðavaxandi tempóæfingu sem er um 20 km löng. Svo tek ég styttri spretti inná milli til að vinna í hraðanum. Þetta er bara eins og þegar ég var að æfa fyrir maraþon fyrir 10 árum síðan,“ segir Sigurjón. 

Hann útilokar ekki að hann verði betri með aldrinum. „Það herðist ekkert á manni en ég verð alltaf reynslumeiri. Ég hef bara ekki sama sprengikraftinn og áður, það er það eina. Úthaldið er það sama það breytist ekkert. Maður verður bara að ná í það.“

Hlaupaáhuginn vaknaði seint

Þótt Sigurjón sé afar reynslumikill byrjaði hann tiltölulega seint að stunda hlaup.

„Hlaupaáhuginn byrjaði ekki fyrr en árið 1998. Fyrir það var ég bara að leika mér í fótbolta með félögum mínum. Ég dundaði mér í sundi þegar ég var yngri en svo gerði ég ekkert í mörg, mörg ár. Fyrst var ég á sjó og stofnaði svo fjölskyldu.“

„Svo skoraði einn vinnufélagi minn á mig að koma merð sér Laugaveginn árið 1998. Það gekk ekkert ofsalega vel því ég var ekki í góðu formi. Þá fékk ég samt áhuga og skráði mig í hlaupahóp ÍR sem ég hef verið í síðan. Á einu ári náði ég að bæta tímann minn í Laugavegshlaupinu um tvær klukkustundir á einu ári. Eftir það fór ég að komast í fremstu röð hlaupara í landinu í mínum aldursflokki.“

Besti heimstíminn tvö ár í röð

„Svo hef ég hlaupið þrjú 100 km hlaup eftir að ég byrjaði að hlaupa. Árin 2011 og 2012 átti ég besta tímann í heiminum í mínum aldursflokki þannig að eitthvað hafði ég í þetta,“ segir Sigurjón hógvær. 

Hann segir að góður félagsskapur og góðir þjálfarar séu ástæðan fyrir því að áhugi hans hafi haldist og árangurinn orðið eins góður og raun ber vitni. „Ég æfi með góðum félögum og góðum þjálfurum, meðal annars hefur Gunnar Páll Jóakimsson þjálfað mig en hann er þjálfari Anítu Hinriksdóttur og Kára Steins Karlssonar meðal annars. Þjálfararnir hafa sagt mér til og ég byggi æfingarnar mínar mest á þeim. Síðan sníði ég þær til sjálfur þar sem ég æfi mikið einn.“

Sigurjón hefur þegar safnað yfir 50 þúsund krónum fyrir Krabbameinsfélagið í gegnum Hlaupastyrk. Hann segir málefnið mikilvægt. „Mér sýnist söfnunin bara ganga vel og þetta er auðvitað gott málefni. Pabbi lést úr krabbameini fyrr á þessu ári og mamma glímdi við þetta í mörg ár, svo það er mér hjartfólgið að hægt verði að finna einhverna meðferð gegn þessu. Ég hef verið styrktarfélagi í Krabbameinsfélaginu í mörg ár,“ segir Sigurjón að lokum. 

Sigurjón fær hér aðstoð við að skipta um sokka í …
Sigurjón fær hér aðstoð við að skipta um sokka í miðju 100 km hlaupi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert