Óvíst hvaðan kafbáturinn er

Rannsóknarskip Ixplorer, MS 12
Rannsóknarskip Ixplorer, MS 12 Af vef Ixlporer

Enn er óvíst hvaðan kafbáturinn er sem fannst nýverið í sænska skerjafirðinum,segir Kristján Eldjárn Jóhannesson, verkfræðingur og einn eigenda Ixplorer, sem kom að leitinni sem staðið hefur yfir í um tvö ár.

Kristján segir að Ixplorer starfi víða um heim og tekur að sér alls konar botnverkefni, meðal annars leit að skipsflökum líkt og í þessu verkefni í Svíþjóð.

Að sögn Kristjáns hafa fjölmiðlar farið offari í málinu og gert meira úr fundinum en ástæða sé til. Síminn hjá honum hefur ekki stoppað frá því í gær en getgátur eru um að kafbáturinn sé rússneskur. Það segir Kristján alls óvíst og búið sé að blása málið út án nokkurrar ástæðu. Ekki liggi fyrir hvaðan kafbáturinn er né heldur nákvæmur aldur hans.

„Eins og þetta hefur alltaf snúið að okkur þá er þetta yfir 100 ára gamalt flak sem hefur fyrst og fremst söfnunargildi eða sem safngripur. Við lítum á það sem slíkt en þegar búið er að blanda sænska hernum og ýmsum í þetta og blása fréttina út getum við í rauninni ekki sagt neitt um fundinn nema að Ixplorer hafi staðið við alla sína samninga,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Aldur kafbátsins merkilegur enda mjög fullkominn

Það sem sé merkilegt er að báturinn hafi sokkið fyrir 100 árum og hann sé fyrst og fremst merkilegur fyrir þær sakir að það hafi verið búnir til svo fullkomnir kafbátar fyrir meira en hundrað árum. „Það er það sem okkur finnst merkilegast við þetta,“ segir Kristján og bætir við að rannsóknin haldi áfram.

Ixplorer hefur unnið að þessu verkefni í samstarfi við Ocean X Team í tvö ár en fyrirtækin tvö hafa oft unnið saman að sambærilegum verkefnum. Rannsóknarskipið er í eigu Ixplorer en fyrirtækið starfar víða um heim og nóg verkefni í gangi segir Kristján. Hann vonast til þess að hægt verði að flytja fyrirtækið allfarið til Íslands en hann er eini Íslendingurinn sem er á launaskrá hjá Ixplorer.

Kyrillískt letur er á skrokki kafbátsins en ekki liggur ljóst fyrir hversu gamall hann er nákvæmlega né heldur hversu lengi hann hefur verið á hafsbotni. Sænski sjóherinn skoðar nú myndirnar sem teknar voru af flakinu og á von á frekari niðurstöðum á næstu dögum.

Einn af köfurum Ocean X Team segir að kafbáturinn sé óskemmdur og engar skemmdir sjáanlegar á skrokk hans sem bendi jafnvel til þess að áhöfnin sé enn inni í flakinu.

Báturinn er rúmir 20 metrar að lengd og rúmir þrír metrar að breidd.

Kafbáturinn sennilega frá 1916

Frétt DN.se

SWEDISH DEFENCE HANDOUT
Rannsóknarskip Ixplorer, MS 12
Rannsóknarskip Ixplorer, MS 12 Af vef Ixlporer
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert