Verðhækkun eða verðlækkun?

Þeir voru ólíkir verðmiðarnir við þennan sófa.
Þeir voru ólíkir verðmiðarnir við þennan sófa. Ljósmynd/Af Facebook

„Hér er um mannleg mistök að ræða. Við erum með gríðarlegt magn af vöru og fyrir útsölur þurfum við að merkja mjög marga hluti. Þá getur það alltaf gerst að menn ýti á vitlausa takka og geri þar með prentvillu,“ segir Eva María Grétarsdóttir, markaðsstjóri verslunarinnar Pier, og vísar í máli sínu til ljósmyndar sem nú gengur manna á milli á samfélagssíðunni Facebook.

Á myndinni má sjá verðmerkingar fyrir Bertie-sófa sem auglýstur var á útsölu í versluninni. Er þar sófinn sagður vera með 10 prósenta afslætti, eða verð nú rétt tæplega 135.000 krónur. Átti hann áður að hafa kostað rétt um 150.000 krónur.

Til hliðar við þennan miða mátti hins vegar finna annan verðmiða þar sem talsvert lægra verð var gefið upp fyrir Bertie-sófann. Var hann þar sagður kosta tæplega 130.000 krónur. Virðist því fljótt á litið sem verslunin hafi fyrir mistök skilið þann verðmiða eftir og sé þar með að blekkja viðskiptavini sína.

Spurð hvort slíkt sé raunin og hvort verð á sófanum hafi verið hækkað skömmu áður en hann var svo settur á útsölu kveður Eva María nei við. „Þetta hefði komið öðruvísi inn í kassann. Hér var bara um innsláttarvillu að ræða. Við tökum þetta mál mjög alvarlega og munum framvegis vera vel vakandi varðandi þetta.“

Blaðamaður hafði einnig samband við Neytendastofu vegna málsins, en mjög algengt er að fólk hafi samband þangað og tilkynni um að tilboð feli ekki í sér raunverulega verðlækkun. 

Neytendastofa getur krafið fyrirtæki um sönnun þess að vara eða þjónusta hafi verið seld á tilgreindu fyrra verði. Geti fyrirtæki hins vegar ekki sýnt fram á það þá getur Neytendastofa bannað háttsemina og eða beitt fyrirtækið stjórnvaldssektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert