Von á Venusi með 650 tonn af makríl

Venus.
Venus. Ljósmynd/HB Grandi

Von er á Venusi NS til heimahafnar á Vopnafirði seint í kvöld eða í nótt með um 650 tonn af makríl. Aflinn fékkst í fjórum holum suður og suðaustur af Hvalbak. Þetta kemur fram á vef HB Granda.

„Það virðist vera þó nokkuð af makríl á þessum slóðum en það voru ekki mörg skip á svæðinu. Við vorum að veiðum á svipuðum slóðum í síðasta túr og fengum þá um 500 tonn og þar af var dálítið af norsk-íslenskri síld sem fékkst í síðasta holinu. Þá fórum við heldur dýpra en í holunum á undan,“ segir Guðlaugur Jónsson skipstjóri.

Tveir starfsmenn Hampiðjunnar, sem hafa með höndum hönnun togveiðarfæra og sölu og markaðssetningu á trollum, hlerum og öðrum togveiðibúnaði, tóku sér far með Venusi að þessu sinni. Markmiðið var að taka neðansjávarmyndir af því hvernig makríllinn bregst við veiðarfærunum. Að sögn Guðlaugs komu myndatökurnar vel út.

„Það er ekki spurning að neðansjávarmyndatökur sem þessar gagnast okkur skipstjórnarmönnum. Við lærum af þessu og Hampiðjumennirnir voru ánægðir með árangurinn,“ sagði Guðlaugur Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert