Annríki hjá hálendisvaktinni

Af nógu hefur verið að taka hjá hálendisvakt björgunarsveitanna það sem af er sumri, en nú er um mánuður liðinn frá því að vaktin hófst. Fimm hópar eru á fjöllum en aðstæður hafa verið óvenjulegar þar sem víða er mikill snjór.

Að sögn Jónasar Guðmundssonar, verkefnastjóra slysavarna ferðamanna, hafa mun færri ferðamenn verið á hálendinu en ella, en verkefnin engu að síður verið mörg. Töluvert hafi verið um að fólk festi sig í ám og utanvega og þá hafi borið á útköllum vegna bílstjóra sem hafa ætlað að spara sér sporin og viljað aka hvert sem er. Slík tilfelli hafi verið tilkynnt lögreglu.

„Eins og síðasta sumar er töluvert um að fólk meiði sig og sinna sjálfboðaliðar því. Sem betur fer hefur lítið verið um alvarleg slys en meðal verkefna sem upp hafa komið má nefna veikindi hjá ferðamönnum, göngufólk sem dettur og slasar sig á fótum, á höndum og í andliti, og fleiri mætti telja til,“ segir Jónas í tölvupósti til mbl.is.

Sem stendur eru tveir hópar björgunarsveitamanna í Dreka norðan Vatnajökuls, tveir í Landmannalaugum að Fjallabaki og einn á Sprengisandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert